30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Ráðherrann (H. H.):

Það er ekki rétt að orði komist að tala um, að tilboð liggi fyrir um lækkun á tolli af innfluttum íslenzkum vörum til Noregs. Það liggur aðeins fyrir tilboð um nýjar samningatilraunir milli norsku stjórnarinnar og Íslendinga, í gegn um utanríkisráðaneytið, um tilslökun frá beggja hálfu, að því er snertir toll á íslenzkum hestum og saltkjöti í Noregi og linun á ákvæðum í lögunum, sem hér gilda um fiskveiðar Norðmanna, sem þeir telja afarhörð og sér óhagkvæm. Hingað til hefir norska stjórnin verið ófáanleg til þess að ganga inn á nokkra slíka samninga, þó Íslendingar hafi sózt eftir því nú í mörg ár. Það var, að því er eg hygg, árið 1897, að fyrst kom málaleitun í þessa átt frá félagi íslenzkra kaupmanna í Kaupmannahöfn. Þeir skrifuðu íslenzku stjórninni og fóru fram á það við hana, að hún gerði tilraun til þess að fá lækkaðan tollinn á íslenzku saltkjöti í Noregi. Hugsuðu þeir sér, að við mundum fá því framgengt með því móti, að setja að öðrum kosti toll á norskan trjávið. En þessi tilraun heppnaðist ekki.

Næsta tilraunin var gerð á Alþ. 1901. Þar var samþykt, 28. ágúst, þingsál till. þar sem skorað var á stjórnina að taka upp aftur til meðferðar hvort ekki væri hægt að fá norska saltkjötstollinn lækkaðan. Það urðu talsverð bréfaskifti um málið, milli stjórnanna, en kom fyrir ekki. Norðmenn voru ófáanlegir til nokkurra samninga. Í maí 1907 er málið tekið upp enn af nýju og þá af sambandi íslenzkra kaupfélaga og þar tekið með, auk saltkjötstollsins, lækkun á tolli af íslenzkum hestum í Noregi. Og þar er fyrst bent á það, að setja megi málið í samband við fiskveiðalöggjöf okkar. Málið gekk í gegn um utanríkisráðaneytið til sendiherra Dana í Kristjaníu og þaðan til norsku stjórnarinnar, en hún veitti afsvör enn á ný.

En í bréfi dagsettu 3. ágúst 1909 er það ekki með öllu aftekið að samningar náist. Þar stendur, að Norðmenn muni ekki „stille sig absolut afvisende“, ef við vildum unna þeim betri kjara, að því er snerti verkun á afla þeirra hér við land. En sama ár í októbermánuði kemur nýtt bréf, þar sem það er með öllu aftekið að lækka saltkjötstollinn — þeir vilji einmitt helzt hækka hann — en það boð gert til sætta, að lækka eitthvað toll á íslenzkum hestum gegn tilhliðrunum héðan. Svona hafa sakir staðið til skamms tíma.

Nú hefir verið fyrir nokkru, með lögum 1911, gerð sú breyting á fiskveiðalöggjöf vorri, að að sömu ákvæði skuli gilda um útlend síldveiðaskip hér við land eins og botnvörpunga, sem sé þau, að skipin skuli í landhelgi hafa bæði báta og veiðarfæri innanborðs, ella sæta hörðum sektum. Þessi ákvæði hafa reynst Norðmönnum ákaflega hörð. Það gerir þeim því nær ómögulegt að veiða á smáskipum og þótt þeir alls ekki vilji brjóta lögin, þá geta þessi ákvæði orðið til þess að gera þeim það því nær ókleyft að neyta réttar þess, er þeir hafa til þess að veiða utan landhelgis.

Nú virðast Norðmenn hafa breytt skoðun sinni á kjöt- og hesta tollinum og í bréfi dags. 28. maí 1912 er skýrt frá því, að sendiherra Dana í Kristjaníu hafi skrifað utanríkisráðaneytinu og skýrt því frá, að nú hefði norska stjórnin lýst yfir því, að Norðmenn væru fúsir til að setja niður toll á íslenzku saltkjöti og hestum gegn nokkurri tilhliðrun í lögunum um eftirlit með síldveiðum þeirra hér við land — og vildu þeir þegar í stað taka upp samninga um þetta efni. Þeim var skrifað aftur og svarað, að ekki væri hægt að taka upp samninga áður en málið væri borið undir Alþingi.

Þá var farið fram á það við stjórnina að frestað yrði framkvæmd laganna 1911, þangað til samningar kæmust á, eða málið væri útkljáð. Stjórnin svaraði því svo, að hún sæi sig ekki hafa heimild til þess, en lofaði að bera málið undir komanda Alþingi og skyldi það verða tekið til athugunar þar. Hér hefir stjórninni nýskeð borist bréf dags.

4. þ. m., þar sem Otto Krag, sendiherra Dana, segist hafa átt tal um málið við utanríkisráðherra Norðmanna — og hafði honum legið það mjög á hjarta og kveðið svo að, að ef Íslendingar vildu láta í ljósi, hvaða tilslakanir þeir vildu gera, þá mundu Norðmenn láta uppi hvað þeir vildu á móti láta — en hann aftók það með öllu að láta nokkuð uppi að fyrra bragði. Til þess kvað hann sig skorta heimild.

Eg hefi nú skýrt frá málinu eins og það hefir gengið til og leyft mér að stinga upp á, að kosin verði 5 manna nefnd til að athuga það. Yrði það þá verkefni þessarar nefndar, að athuga, hvort sömu kringumstæður eru fyrir hendi nú eins og áður, og hvort ástæða er til að leggja nokkuð í sölurnar til þess að fá kjöt- og hesta-tollinn lækkaðan í Noregi. Og komist nefndin að þeirri niðurstöðu, þá að gefa ráðherra einhverjar bendingar um hve langt megi fara af Íslendinga hálfu, hvort heldur að nema úr gildi ákvæðin í lögunum frá 1911, eða slaka til á ákvæðunum um verkun afla Norðmanna hér við land.

Eg vona, að háttv. deild fallist á þessar ástæður mínar til nefndarskipunar.