30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Bjarni Jónson:

Eg hefi hlýtt á tal manna um sögu þess máls, og skal eg ekki vera neitt reiður, þó að mín sé þar ekki getið að neinu. En tveimur undanförnum stjórnum er gert rangt til, því að þær hafa stöðugt haldið áfram að reyna að komast að samningum við Norðmenn. Eg hefi með samþykki þeirra spurt mig fyrir í Noregi og sent stjórninni skýrslur um undirtektirnar. Eg held eg hafi síðast getið um þær hér í deildinni, þegar rætt var um eftirlitið með síldveiðunum nyrðra. Til síðasta árs var svarið ætíð: Hvað veitið þið í staðinn? Eg sagði þeim að hér væri enginn tollur á norskum vörum, en vel mætti vera að vér neyddumst til að tolla t. d. við, ef þeir vildu eigi lina á tolli af vorum vörum. En þeir höfðu hugsað sér, að Íslendingum væri þetta kappsmál og að þeir vildu vinna mikið til, að það næði fram að ganga. Eg man eftir að skrifstofustjórinn í búnaðarráðaneytinu spurði mig, hvort við mundum ekki vilja leyfa Norðmönnum að veiða í landhelgi. Sagði eg, að ekki kæmi til nokkurra mála, að Íslendingar gengju að því. Á síðasta þingi voru samin lög um það, að skipum var bannað að sigla með báta aftan í sér um landhelgissvæðið. Þessi lög þóttu Norðmönnum feikihörð, enda urðu margir þeirra að láta skip sin sitja heima, þau, er ekki voru nógu stór til að geta fylgt þessu ákvæði (Guðl. Guðmundsson: Alveg rétt!). Í vetur heyrðist mér. að Norðmenn vildu gjarnan láta undan í þessu tollmáli ef þessi lög yrðu afnumin. Eg var svo viti borinn að tala ekki eins og sá sem vald hafði, og lofaði engu en taldi líklegt, að þetta fengi góðar undirtektir ef leitað væri til stjórnarinnar. Þessar málaleitanir eru svo svarið við því. En það finst mér skökk leið, að fara með þetta mál gegnum utanríkisráðaneytið. Það er eru engir samningar ríkja á milli sem gera þarf, og því utanríkisráðaneytinu algerlega óviðkomandi. Finst mér Íslandsráðh. ætti aðgera það sem einfaldast er og tala við Norðmenn Verð eg að vera á sama máli og hæstv. rh. (H. H.) og hv. þm. Ak. (G. G.), að betra er fyrir stjórnina að vita fyrirfram hvað hún má bjóða. En aftur á móti er eg algerlega á annari skoðun en hv. þm. Sfjk. (V. G.) sem vill að stjórnin taki svo mikil völd af þinginu sem hún getur. (Valtýr Guðmundsson: Eg vil sterka stjórn). Eg veit ekki hvernig þetta stendur í bæinn hans. Mér dettur í hug sagan um froskana sem vildu fá sér konung. Júpíter fekk þeim fyrst trédrumb, en er þeir urðu óánægðir með svo aðgerðalítinn drottinn, lét hann þá kvikindi falla niður í vatnið til þeirra, er át þá alla upp á endanum. Eg held að líkt færi fyrir því þingi, þar sem stjórnin leiðir þingið, en ekki þingið stjórnina, en það er nú ef til vill af því, að mér hefir aldrei dottið í hug að verða stjórn (Valtýr Guðmundsson: Jú, í fyrra). Eg veit ekki hvernig það snerist í mér ef eg yrði einhverntíma óléttur. En enn sem komið er, verð eg að halda fast við þetta og telja það lofsvert af hæstv. ráðherra að hann leitar þingsins í þessu máli. Mér er ekki vel ljóst, hvernig þingið getur bezt látið hæstv. ráðherra vita um álit sitt, hvort málið verður látið ganga alveg í gegnum þingið eða að eins í gegnum deildina, en einhverja yfirlýsingu verður hann að fá, svo að hann geti sagt Norðmönnum, að þetta muni ganga í gegn, mót nægilegri tilslökun af þeirra hálfu. Hitt ætti að vera létt verk fyrir nefndina að sjá, hvaða þýðingu það hefir fyrir okkur ef kjöttollurinn yrði lækkaður í Noregi, því að enn sem komið er, flyzt mest af íslenzku saltkjöti þangað. Og þó að markaður opnaðist fyrir það í Danmörku, er ætíð nauðsynlegt að eiga markað opinn víðar enn á einum stað, svo að verðið haldist. Annars þyrfti ekki nema litla tilslökun frá Norðmanna hálfu, til þess að afnema þessi lög, sem allir sjá að eru óréttlát. Eftir því sem hv. þm. Ak. (G. G.) segir, voru þau samin eftir tilmælum formannsins á varðskipinu til þess, að létta honum starfið. Það er líka auðséð hve vel hann athugar þetta mál, því að einmitt nú, þegar hann á að telja þau skip, sem sigla með bátana útbyrðis á landhelgissvæðinu, fer hann til Grænlands, til að telja þau þar.