30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg býst við að það fari fyrir okkur hv. þm. Sfjk. (V. G.) og mér, eins og kerlingunum forðum, sem sögðu „klipt var það, skorið var það“. Hann hefir ekki sannfært mig og eg býzt ekki við að eg geti sannfært hann. Eg er honum samdóma að eins í einu atriði, sem sé því, að þingið eigi ekki að vasast í „öllum mögulegum málum“. En þetta getur ekki talizt „öll möguleg mál“, þó að þingið sé beðið fyrirfram að láta í ljós álit sitt, hvort nokkur vegur sé til að fá þessu nýsamda löggjafarákvæði breytt. Um það er eg fyllilega samþykkur hæstv. ráðh. (H. H.) og hv. þm. Borgf. (Kr. J.).

Mig langar til að minna hv. þingm. Sfjk. (V. G.) á, að hann hefir tekið þátt í atkvæðagreiðslu í máli, sem var eins vaxið og þetta mál. Það var á Alþingi 1897 er rætt var um breyting á lögum um botnvörpuveiðar frá 1894. Enskur sjóliðsforingi með heilan herskipaflota hafði komið hingað til að leita samninga við þingið um það mál. (Valtýr Guðmundsson: Þá var ekki íslenzk þingræðisstjórn.) Nei, og því minni ástæða var þá til, að leita til þingsins. Veit eg að hv. þm. rekur minni til, að þá var samþykt í lögunum að veita þá tilslökun sem Englendingar fóru fram á. En eg man það sérstaklega og eg veit að hv. þm. man það líka, að eg stóð þá upp eftir að síðustu umr. var lokið, sem framsögum. nefndarinnar, sem sett hafði verið í það mál, og tók það skýrt fram, að þingið veitti ekki stjórninni heimild til að láta staðfesta þessi lög nema samningar fengjust við Englendinga. Tók stjórnin óhikað við þessum skildaga frá þingsins hálfu.

Eg get því ekki séð, að hér sé snúið inn á neina óeðlilega braut, þar sem vér áður í svipuðu máli höfum farið sama veg, og það í samningum við margfalt stærri þjóð en hér er um að ræða. Þessa leið verður einmitt að fara, ef hér á að draga til nokkurra ábyggilegra samninga.

Háttv. sessunautur minn (J. Ól.), vildi að Norðmönnum yrði veitt sérstök undanþága, en lögunum ekki breytt.

Það væri talsvert einkennilegt, þar sem það eru hér um bil eingöngu Norðmenn sem reka hér síldarveiðar. (Jón Ólafsson: Svíar.) Jú, Svíar hafa hér 1 skip og Þjóðverjar 2. Eg er hræddur um að þær þjóðir mundu kunna því illa ef sérstök lagaákvæði væru látin standa í gildi um þeirra skip. Þekki eg þá Þjóðverja illa ef þeir una því vel að vera gerðir hornrekur.

Eg skal svo ekki segja meira, en vil að málinu verði vísað til nefndar, á sama hátt og eg hefi stungið upp á.