30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Ráðherrann (H. H.):

Eg stend að eins upp út af orðum hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Hann sagðist vonast til þess, að þessi málaleitan Norðmanna stæði ekki í sambandi við drátt skattamálanefndarinnar á að afgreiða frumv. um útflutningsgjald af fiski og lýsi o. fl. Eg get fullvissað háttv. þingm. um það, að drátturinn stendur engan veginn í sambandi við þessa málaleitun. Drátturinn hlýtur að stafa af öðrum ástæðum. Raunar er ekki svo áliðið enn, að ekki sé hægt að afgreiða téð frumvarp frá þinginu, en þó væri óneitanlega æskilegt, að nefndin afgreiddi frumv. sem fyrst til deildarinnar.