12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

70. mál, lending í Arnardal

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Eg hefi lítið um málið að segja þar sem tillagan ber það sjálf glögglega með sér, hvað farið er fram á. En tildrögin til hennar eru þau, að 15 sjómenn í Arnardal hafa skrifað þinginu, og farið þess á leit, að það hlutaðist til um, að landsverkfræðingurinn komi við í Arnardal, er hann á ferð til Vestfjarða og rannsaki lendinguna þar.

Skamt fyrir framan landsteinana í Arnardal, þá er sker, eða boðar, sem gera lendinguna mun örðugri og hættumeiri en ella myndi. Sérstaklega bagar það mjög mótorbátum, sem ella eru orðnir algengir við Ísafjarðardjúp. Telja sjómenn, að þetta megi laga með mjög litlum kostnaði, og um nokkurn kostnað frá landssjóðs hálfu er alls ekki að ræða í tillögunni, en að eins farið fram á, að landsverkfræðingurinn komi við í Arnardal, ef hann eigi leið um.

Arnardalur er gömul verstöð, sem liggur vel við sjósókn, en sjómenn þar hafa á seinni árum orðið að mun aftur úr öðrum verstöðum, og kenna þeir það eigi hvað sízt lendingunni, svo að mjög æskilegt er því, að hún verði bætt sem fyrst.

Eg hefi leitt málið í tal við hæstv. ráðh. (H. H.), og hefir hann tekið vel í það og talið verkfræðinginn vel geta sint þessu, er hann eigi ferð vestur, sem verða muni mjög bráðlega.

Eg vil því gera það að tillögu minni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.