16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Matthías Ólafsson:

Eg hefi um langan tíma verið á þeirri skoðun, að landið eigi að eiga sem allra flest flutningstæki sem það notar, og eigi helzt að hafa sjálft með höndum alla flutninga til frá landinu. Eg er því á þeirri skoðun að bezt sé að landið eigi strandferðabátana, en samt get eg ekki álitið að nú sé hentugur tími til að kaupa þá, og allra sízt þá báta sem hér er um að ræða. Eg álít ekki ráðlegt að kaupa þá þótt þeir fáist fyrir þetta lága verð. Þeir eru ekki vel fallnir til strandferða; þeir eru jafn vel verri en Hólar og Skálholt Og þó nú sé talsverð eftirspurn eftir skipum, þá er engin sönnun fyrir því, að sú eftirspurn haldist, svo að það gæti farið svo að við gætum ekki losnað við þá. Auk þess er nú nýlega uppgötvuð ný tegund skipa, sem eg tel víst að okkur muni verða hentugri þegar búið er að fullkomna hana. Eg á við Dieselmótorskipin; þau hafa þann kost, að steinolían er hægari í vöfum en kol. En þó eg sé nú ekki á því að kaupa þessi skip nú, þá er eg eins og eg sagði áðan hlyntur þeirri hugsjón að landið eigi öll flutningatækin og vona eg að þess verði ekki langt að bíða, að sú hugsjón komist í framkvæmd.

Það var sagt að líkindi væru til þess að bátarnir mundu frekar borga sig ef landið ræki útgerðina og íslenzkir skipstjórar væru á þeim báðum. Eg tel hæpið að þetta sé rétt. Að Austri borgaði sig betur en Vestri kom ekki til af því að skipstjórinn var íslenzkur, heldur af því að hann fór hringferðirnar kring um landið, en Vestri ekki. Hefði Vestri farið hringferðir líka, þá hefði hann áreiðanlega borgað sig, þó skipstjóri væri danskur. Eg hygg því að réttara sé nú að ganga að till. meiri hlutans En þar eð auðsætt er að enga viðunanlega samninga er hægt að fá með 40 þúsund kr. tillagi, þá hefi eg hugsað mér að koma með br.till. um að hækka það upp í 60 þús. Eg efa ekki að stjórnin muni gera sér alt far um að komast að sem ódýrustum samningum, en eg álít að við verðum að leggja talsvert í sölurnar heldur en að verða án strandferða, og vil eg því að henni sé leyft að semja um alt að 60 þús kr. till.