21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Tryggvi Bjarnason:

Við fyrstu umræðu þessa máls var það sagt hér í deildinni, að strika mætti út strandferðir. Út af því skal eg taka það fram, að það eru einu samgöngurnar á sjó, sem sum héruð hafa. Viðkomur strandbátanna eru eftir ferðaáætluninni fyrir 1912, 969, þó ekki séu taldar með hringferðir Austra. Þjóðinni myndi því bregða stórkostlega við ef strandferðunum væri kipt burtu, og flóabátarnir geta ekki fullnægt þörfum manna því að þeir eru ekki nema á stöku stað. Hinsvegar álít eg að miklu tiltækilegra, en að fella strandferðirnar alveg burtu, væri að fækka þeim t. d. úr 6 niður í 4. Um miðsumarið hafa þeir lítið að flytja og gætu þeir á þeim tíma farið 1—2 ferðir til útlanda.

Mér virðist sem upptalning minni hluta nefndarinnar á þeim höfnum, er strika megi út af áætlun strandbátanna sé gerð algerlega af handahófi, enda sést ekki hverjar hafnir hann vill láta falla algerlega burt, og hverjar að eins að nokkru leyti, en eg er einmitt hræddur um að hann vilji alveg fella burt þær hafnir sem sízt má að mínu áliti .— nefnilega þær, sem millilandaskipin ekki koma á. Slíka viðkomustaði má ekki fella burtu nema þá þar sem flóabátar eru, en þeir eru nú ekki nema 4 flóabátarnir, sem styrks njóta úr landssjóði. 1. á Faxaflóa, 2. á Breiðafirði, 3. á Ísafirði og 4. á Eyjafirði. Um Húnaflóa gengur enginn slíkur bátur. Millilandaskipin koma þar örsjaldan við, t. d. er millilandaskipum Thorefélagsins aldrei ætlað að koma á hafnir við Húnaflóa á árinu 1912. Reyndar stendur í athugasemd við áætlunina — ekki í henni sjálfri — að komið verði við á Húnaflóa í 1—2 ferðum, ef nægilegur flutningur fáist. Skipin koma nú og oft áætlunarlaust, en þau geta að eins einstakir menn notað, en ekki almenningur, því að hann veit ekkert um hve nær þau koma, og getur yfirleitt ekkert á þau treyst. Það er engin sanngirni í að strika hafnirnar við Húnaflóa út af áætlun strandbátanna því að þangað er oft mikið að flytja, t. d. kemur það oft fyrir að skip liggja hálfan til heilan dag á Hvammstanga þótt veður tálmi ekki afgreiðslu.

Ef Húnaflói yrði sviftur strandferðunum, yrði hann olbogabarn eins og hann svo oft hefir verið áður.

Það sýnir ókunnugleika minni hluta nefndarinnar, að hann vill strika út Kálfshamarsvík og Reykjarfjörð. Kálfshamarsvík er stórt fiskiver, enda koma strandferðabátarnir þar við í öllum ferð um fram og aftur þetta árið, þá höfn væri með öllu ófært að fella burtu.

Það kann að vera, að til sumra þeirra staða, sem minni hluti nefndarinnar telur upp, sé ekki mikill flutningur, en að fella þá alveg burtu er samt ófært.

Mér finst vel hugsanlegt, að þó strandbátarnir hæfu göngu sína í apríl og gengju fram í október, þá færu þeir að eins 4 ferðir auk hringferðanna, sem heldur þyrfti að fjölga en fækka, og gætu þeir þá farið til útlanda með t. d. ull að sumrinu og komið aftur með vörur að haustinu, svona í september-mánuði. Sé það rétt að upp úr flóabátunum hafist að eins 2/8 af kostnaðinum, þá er það af því að þeir hafa of lítið svæði undir. Annars væri ekki vanþörf á að gera gangskör að því að rannsaka hvernig flóabátarnir bera sig, og er ilt að halda áfram að styrkja báta sem ekki borga sig og engin þörf er fyrir.

Þá ætti og að sjá um að strandbátar og flóabátar keptu ekki hvorir við aðra.

Eg býst við að greiða atkvæði með tillögum meiri hluta nefndarinnar. En þeirri áskorun vildi eg um leið beina til ráðherra, að ef samningar takast um strandferðir, að fella ekki burtu viðkomustaði, fækka heldur ferðunum.