21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Þannig er t. d. ástatt með Patreksfjörð, Bíldudal og Bolungarvík. Heldur ekki virtist nefndinni ástæða vera til að þeir kæmu þar sem flóabátar eru á stöðugu ferðalagi. Nú er ferðum þannig háttað að stundum eru 3 skip í einu á sömu höfninni:

millilandaskip, strandbátur og flóabátur. Það má geta nærri hvert vit er í slíku. Hvað þeim viðkomustöðum viðvíkur, sem gert er ráð fyrir í nefndaráliti minni hluta nefndarinnar að fella megi burtu af áætlun, þá skal eg taka fram að sú upptalning er aðeins bending til stjórnarinnar, en annars ætlast til að hún rannsaki málið nákvæmlega, og taki ákvörðun eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Að láta skipin vera að koma á hafnir þar sem reynzlan hefir sýnt að ekkert er að gera er ekki til neins annars en að eyða peningum.

Gagnvart því sem háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) sagði, skal eg taka fram að ástæðan til þess að Eyjafjarðarbáturinn bar sig ekki 1911 betur en raun varð á, voru einkanlega ferðir hans á hafnir við Húnaflóa, sem báturinn var leigður í, þvert ofan í tillögur félagsstjórnarinnar. Kom hann á þær í fjórum ferðum. Þessar hafnir voru Blönduós og Lambhúsavík, og þangað hafði hann sannarlega lítið að gera. Í fyrra voru bruttotekjur bátsins af Blönduós kr. 26, 48, þar af voru 25 kr. borgaðar fyrir afgreiðslu, svo að nettotekjur bátsins af þeirri höfn voru kr. 1,48. Og til eða frá Lambhúsavík hafði hann eftir því sem eg bezt veit ekkert eða sama og ekkert að flytja. Hins vegar er mér óhætt að fullyrða að 4 ferðir frá Sauðárkrók vestur á Húnaflóa — til Blönduóss og Lambhúsavíkur — kosta að minsta kosti 800—900 kr. Á Blönduós fékst í vor enginn afgreiðslumaður. Þeir sögðu þar blátt áfram að þeir kærðu sig ekkert um skip sem þeir hefðu ekki beðið um. Eyjafjarðarbáturinn kom þangað einu sinni í vor með rúma smálest af vörum og urðu skipsmennirnir sjálfir að flytja vörurnar í land, því þar á staðnum fekst enginn til þess að skipa þeim upp. Vestri kom þar líka í vor eitt sinn með tvær smálestir eða svo og það fór á sömu leið, skipsmennirnir urðu sjálfir að flytja vörurnar í land. Á þessum stöðum verða skip oft að bíða lengi með smáræði eftir afgreiðslu þó þau hafi afgreiðslumann á staðnum og menn eigi von á flutningi. Eg verð að segja að það að vera að leggja báta á slíkar hafnir þar sem ekkert er að gera, er ekki til annars en að baka útgerðarfélaginu og landssjóði kostnað. Þar sem flóabátarnir ekki hafa nema hæfilegt svæði, þar eru þeir miklu hentugri bæði til fólks- og vörflutninga en strandbátarnir; gallinn hefir hingað til verið sá, að þeir hafa verið teygðir um alt of stórt svæði. En mesta fásinna væri að hætta að halda uppi flóabátaferðunum. Það er þó vísir til innlendra gufuskipaferða, sem sannarlega væri vert að glæða. Það er ólíkt betra að styrktarféð renni til innlendra manna, en að vera að troða því í vasa útlendinga. Það er eins með strandbátana eins og læknahéruðin af því landssjóður á að borga brúsann, þá vilja menn helzt hafa bátana inn á hverja vík eins og menn heimta lækni í hverja sveit þótt engin þörf sé fyrir.

Nefndin athugaði tillögu háttv. þm. Árn, (S. S.) og er honum samdóma um, að tiltækilegasta ráðið til þess að bæta úr samgönguleysinu fyrir suðurströnd lansins, sé að hafa hæfilega stóra vélaskútu sem hafi aðalstöð sína í Vestmannaeyjum. Nú þegar síminn er kominn þangað, og kemur væntanlega bráðum austur í Vík, má símleiðis fá að vita til Vestmanneyja hvort leiði er á flestar hafnir á suðströndinni, svo sem Eyrarbakka, Stokkseyri og Vík, og að því er snertir Hornafjörð, er svo til ætlast, að strandbáturinn, sem gengur austur um landið, komi þar við að minsta kosti í tveim ferðum, í apríl og júlí.

Viðvíkjandi því sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði um Þýzkalandsferðir, þá skal eg taka það fram, að það er alls ekki meining nefndarinnar, að stjórnin sé bundin við Lübeckferðir ef hún getur fengið haldið Hamborgarferðunum áfram. Nefndin leit aðeins svo á, að ekki mundi hægt að fá Hamborgarferðunum haldið áfram án sérstaks fjárframlags úr landssjóði, en hafði hins vegar von um að ferðir til Lübeck fengjust án sérstaks styrks, þar sem sjóleiðin þangað er miklu styttri en til Hamborgar, en sem sagt geti stjórnin, landssjóði að kostnaðarlausu, fengið Hamborgarferðunum haldið áfram, þá er tilgangi nefndarinnar með skilyrðinu náð.