21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Tryggvi Bjarnason:

Háttv. þm. Ak. (G. G) sagði að strandbátur Eyfirðinga hefði ekki svarað kostnaði í fyrra af því hann hefði farið til Blönduóss og Hólmavíkur. Það er nú alt af gott „að hafa barn fyrir blóra“. En þetta getur stafað af tvennu: í fyrsta lagi því, að skipin komi mörg á sömu höfn í einu, það er óhagkvæmri áætlun að kenna; og í öðru lagi vegna þess, að áætlanir skipanna eru ekki sendar nægilega út, svo menn vita ekki hvað skipunum líður.

Eitt sinn leitaði eg að áætlun Faxaflóabátsins í verzlunum og á afgreiðslustöðum víðsvegar, og fann hana ekki fyr en svo seint, að eg gat ekki notað bátinn. Og þetta er ekki eins dæmi, þó ilt sé. Til þess að not verði að skipunum, þurfa áætlanir að vera í höndum sem flestra, og verður að sjá um að svo megi vera.

Eg skil það vel, að bátur sem gengur frá Eyjafirði til Húnaflóa, hljóti að fá minni flutning en t. d. bátur sem gengi þangað af Ísafirði. Þaðan flyzt meiri farmur og þangað. Einkum mundi þó þetta verða ef strandferðirnar fækkuðu. Yrðu strandferðirnar ekki nema fjórar, þá hefði bátur af Ísafirði til Húnaflóa nóg að gera, ef hann fylgdi fastri áætlun, sem almenningur vissi um. Þó háttv. þm. Ak. (G. G.) hafi rétt fyrir sér í því, að ferðirnar á Húnaflóa hafi reynst Eyjafjarðarbátnum arðlitlar, þá sannar það alls ekki, að ekki sé full þörf á bát þangað, alveg eins mikil og annarsstaðar.