20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

88. mál, ríkisréttindi Íslands

Frams.m. (Skúli Thoroddsen):

Það er óþarft að vera langorður um þessa tillögu. Hún hefir verið höfð svo glögg, og sundurliðuð svo rækilega, sem frekast er unt, svo að hún talar því í rauninni sjálf sínu eigin máli.

Tillagan hefir verið borin fram vegna þriggja málsaðila.

a. Í fyrsta lagi vegna Íslendinga sjálfra,

b. í öðru lagi vegna Dana,

c. og í þriðja lagi vegna annara erlendra þjóða.

Kunnugt er oss flutningsmönnunum að vísu, hverjum örlögum tillagan muni sæta hér í deildinni, þar sem „bræðingurinn“ svo nefndi, eða samningar við Dani, liggur nú í loftinu. En það er –máske einmitt engu síður þessa vegna – nauðsynlegt, að tillagan komi fram, því að vér rekum oss æ öðru hvoru á það, bæði í blöðunum og sjáum það af ályktunum þingmálafundanna, eins og vér og heyrum það á umræðum í þinginu, að jafnvel Íslendingum sjálfum eru efni þessi engan veginn svo ljós, sem skyldi.

Það er t. d. þrefað um það fram og aftur, hvort vér höfum rétt til þess að hafa sérstakan íslenzkan fána, enda þótt vér höfum glögga viðurkennig þess frá danska löggjafafarvaldsins hálfu, að „siglingarnar“ og „verzlunin“ séu íslenzk sérmál, og þar með þá og viðurkent:

a. Að það sé íslenzka löggjafarvaldsins eins að ákveða, hvaða fána Ísland hafi á skipum sínum, og

b. að þeir ætli sér að sjá um, að ekkert verði því til fyrirstöðu, að sá fáni fái alþjóða viðurkenningu, þegar til kemur.

Þetta þarf að vera Íslendingum ljóst, og Dönum ekki síður. Ef þeir berjast á móti íslenzkum fána, brjóta þeir loforð sín.

Sama verður ofan á, ef litið er á strandvarnirnar, Það er þrefað um það fram og aftur, að Danir geri það vor vegna, — sýni oss þann „velgerning“, að hafa þær á hendi. — En þetta er ekki rétt. Það þarf að vera öllum ljóst, að þegar Danir eru að verja íslenzka landhelgissvæðið, þá eru þeir eigi að eins að gæta þess, að ekki sé gengið á rétt Íslendinga, heldur eru þeir og jafnframt að gæta þess réttar, sem íslenzka löggjafarvaldið hefir veitt þeim sjálfum til jafns við Íslendinga, — gæta réttar, sem Færeyingum þykir sig eigi hvað sízt miklu skifta. Þeim þarf að vera það ljóst, að þegar þeir bægja útlendum botnvörpungum o. fl. frá landhelgissvæðinu, þá gera þeir það því ekki einungis vegna Íslendinga, heldur og vegna sjálfra sín og Færeyinga. En jafnframt því er Dönum, sem Íslendingum o. fl., verður að vera þetta ljóst. þarf þeim og að vera það ljóst, að þennan rétt hafa þeir ekki lengur, en íslenzka löggjafarvaldinu þóknast, þar sem vér höfum viðurkenningu Dana fyrir því, að „fiskveiðarnar“ séu eitt þeirra mála, sem íslenzka löggjafarvaldinu ber einu um að fjalla. En meðan íslenzka löggjafarvaldið notar ekki þann rétt sinn, að óheimila Dönum og Færeyingum rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands, þá eru strandvarnir Dana hér við land ekki að eins í þágu Íslendinga, heldur og í þágu annara þegna Danakonungs. Og meðan Danir hafa þessi forréttindi, verður því ekki sagt, að þeir annist strandvarnirnar fyrir ekki neitt, því að séu þau metin til peninga, ímynda eg mér að svo megi á málið líta, sem Íslendingar borgi strandgæzluna fyllilega háu verði.

En þrátt fyrir alt það, er nú hefir getið verið, þá er kostnaðurinn við danska varðskipið í fjárlögum Dana þó engu að síður talinn styrkur til Íslands og íslenzkir þingmenn tala um, hve leitt það sé, að láta Dani vera að verja landhelgissviðið fyrir ekki neitt, og greiða jafnvel atkvæði með því, að láta þá fá hluta af sektunum fyrir ólöglegar veiðar. Þetta sýnir, að hvorki Íslendingum né Dönum er þetta málefni svo ljóst, sem vera ætti.

Þá þrátta menn og um það, hvort vér höfum rétt til þess að hafa sjálfir strandgæzluna á hendi, gætandi eigi þess, að Danir hafa sjálfir viðurkent það í stöðulögunum, að „lögreglumálin“ séu íslenzkt sérmál, er íslenzka löggjafarvaldið og íslenzka lögregluvaldið eigi því um að fjalla, og getum vér því, hve nær sem við viljum tekið strandvarnirnar að oss, — haldið skipi úti sjálfir til að annast þær að öllu leyti.

Því hefir verið slegið fram hér í deildinni af hv. þm. Vestm. (J. M.), að þegar kæmi út fyrir landhelgissvæðið, þyrfti hervald, ef handsama ætti botnvörpunga; en slíkt nær ekki nokkurri átt, að eigi sé leyfilegt að elta lögbrotsmann „in continenti“, sé hann kominn út fyrir landhelgissvæðið, þ. e. kominn út á það svæði sjávarins, sem alþjóða eign er talin. Hvað ættu alþjóðir að hafa á móti því? Er það eigi í allra þágu,að lögbrotamenn séu heftir? Það er eins og ef þjófur væri að brjótast inn í hús, og ekki mætti taka hann fastan, væri hann kominn út á götuna.

Þá eru menn og að þrátta um það, hvort vér höfum heimild til að hafa;; sérstaka konsúla, gætandi þess eigi, að í því efni höfum vér og viðurkenningu Dana við að styðjast, þar sem þeir hafa í stöðulögunum viðurkent, að eigi að eins „siglingarnar“ heldur og „verzlunin“ sé íslenzkt sérmál; en hagsmunir þeirra atvinnugreina eru það, sem þörfina á „konsálum“ (verzlunarræðismönnum) skapa, og lagaákvæði er þá snerta, því í raun réttri eigi annað en einn þátturinn í verzlunar- og siglinga löggjöfinni.

Sama er að segja um önnur atriði, er þingsályktunin nefnir, og sem eg hirði ekki að fara að telja upp — aðalatriðið er að gera sér það ljóst, hvað Danir hafa sjálfir viðurkent sem rétt vorn.

Eg gat þess í upphafi ræðu minnar, að tillagan væri og komin fram vegna Dana, svo að þeim yrði það sem ljósast, hverju þeir hafa lofað, þar sem þeir virðast hafa gleymt því, og á það þá ekki illa við, að þetta komi einmitt fram nú, þegar ráðgert er, að fara að leita samninga við þá að nýju. En sérstaklega er oss Íslendingum þó áríðandi að hafa það hugfast, að alóþarft er að fara að semja um það, eða skoða það sem ívilnanir af Dana hálfu, sem þeir hafa þegar hafa boðið fram og viðurkent — í stöðulögunum — sem rétt vorn.

Ókyrðin sem nú er hér í salnum, og „rökstudda dagskráin“, sem fram er komin, bendir annars hvorttveggja glögt á, hvers sinnis þingmenn eru, — hve mikla þeir telja sig orðna síðan „bræðingurinn“ og „sambandsflokkurinn“ kom til sögunnar. — En ætli sú geti þó enn eigi reyndin á orðið, að nógu snemma sé sigri fagnað, — að líkt geti enn farið sem í millilandanefndinni, að sigurinn verði að lokum eigi þar, sem fjöldinn er nú, en falli í skaut vor hinna, sem nú erum fáir.

Að því er loks snertir það, er eg sagði, að þingsályktun vor væri og fram komin vegna annara þjóða, skal eg að eins geta þess, að verði þeim það ljóst, að Danir virði eigi loforð eða viðurkenningar sjálfra sín, þá stöndum vér betur að vígi — verður styrkur að samhug þeirra, eða velvild í vorn garð. Og sé þingsályktunartillagan athuguð. þá getur enginn íslenzkur þingmaður mótmælt því, að þar er í öllum greinum með rétt mál farið, — né heldur getur nokkur danskur þingmaður mótmælt því, eða aðrir, hverir og hverra þjóðerna, sem eru.