22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

74. mál, aðstoðarmenn héraðsdómara í sjómálum

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg hefi, því miður, ekki verið inni, svo að eg veit ekki hvernig hv. flutningsm. (L. H. B.) hefir tekið brtill. á þskj. 322. Eg tel nauðsynlegt að sýslumönnum sé veitt aðstoð til þess, sem þar er um að ræða, því að bæði er það sumstaðar svo mikið verk, að í það gengur afartími, og í öðru lagi er það svo sérstakt, að varla er að búast við því, að sýslumenn séu því alment vaxnir til hlítar. Annarsstaðar eru hafðir til þess sérstakir menn og áður fór það ekki fram hér nema á fjórum stöðum á landinu. Það er óheppilegt, að sýslumenn hafi þetta á hendi, því að reynsla stjórnarráðsins er sú, að það er vanrækt þar sem ekki hefir náðst í hæfa menn, og það getur verið skaðlegt fyrir eigendur skipanna. Það er þess vegna óhætt að samþykkja þessa brtill.

Hitt er annað mál, þótt skrásetning skipa sé falin sýslumönnum, því að hún er skyldari starfi þeirra að öðru leyti, en mælingarnar eru því alveg óskyldar og krefja svo mikillar þekkingar í stærðfræði og svo langs tíma, að ekkert vit er í því, að leggja þær á þá.