23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

96. mál, verkun og sala ullar

Framsögum. (Pétur Jónsson); Eg skal byrja á því að taka það fram, að eg er ekki undir það búinn; að hafa framsögu þessa máls á hendi. Ullarmat var hér til umræðu í þinginu í fyrra og afleiðingin varð sú, að veittar voru 1.200 kr. hvort árið á fjárlögunum til þess að rannsaka ullarmarkað, beina ullarverzlun okkar rétta leið og útvega þekkingu um hina heppilegustu aðferð að því er ullarverkun snertir. Fjárveitingin var jú helzt til lítil til þess að hægt væri að vænta verulegs árangurs af henni. Ef hún ætti að koma að nokkru haldi, yrði maður sá, er téða fjárupphæð fengi, að fara ekki skemra en til Ameríku, og auk þess þyrfti hann að kynna sér nákvæmlega ástandið hér heima, til þess að geta skapað sér skoðun um, hvernig ráða mætti fram úr göllunum.

Framkvæmdin á þessari rannsókn var falin Sigurgeiri Einarssyni og hefir hann unnið að henni mjög rösklega. Hann fór til Ameríku og kynti sér markaðs horfur þar, og sömuleiðis leitaði hann sér upplýsinga um markaðshorfur víða hér í Norðurálfu. Sigurgeir Einarsson hefir ritað í opinber rit um málið, skýrslu um ferð sína og bendingar um hvernig haga eigi ullarverkuninni.

Af því að eg hefi dálítið fengist við þetta mál, langar mig til þess að fara um það nokkrum orðum enn. Það var fyrir meir en 30 árum að Kaupfélag Þingeyinga sendi mann. Kristján Jónasson, til útlanda til þess að rannsaka markaðshorfur og ullarverkun. Hann fór til Englands, því að þá var mest af íslenzkri ull selt þar. Hann gaf góða og greinilega skýrslu um ferð sína og bendingar um hvernig verka ætti ullina, sem varð til þess, að ullarverkunin þar norður frá má heita góð. Niðurstaðan sem Sigurgeir Einarsson hefir komist að, er mjög svipuð Kristjáns Jónassonar, enda mennirnir báðir athugulir menn. Nú hefir þó markaðurinn verið rannsakaður á öðrum stað. Það hefði verið grunsamt, ef niðurstaða þessara rannsókna hefði orðið gagnólík hvor annari gagnólík. Sigurgeir Einarsson telur nauðsynlegt að koma upp ullarþvottastöðvum og er nú búið að koma einni slíkri á fót í Borgarnesi og eru allar líkur til að slíkar stöðvar muni stofnsettar víðar. Kostnaðurinn við þær er að vísu mikill, en þær afkasta líka miklu og borga sig, ef þær hafa nóg að gera.

Eins og Sigurgeir Einarsson hefir bent á, á hann enn eftir að afla sér ýmissa upplýsinga; enda stendur hann í bréfaskiftum um þetta efni við menn víðsvegar út um lönd. Enginn vafi er held ur á því, að almenningur þarf miklu meiri leiðbeiningar í þessu efni en hann hefir átt kost á að fá hingað til og þyrfti að koma upp stöðvum sem leiðbeindu fólki, að því er ullarverkun snerti. Til þess að koma samræmi í ullarverkunina, þarf að fara eins að og gert hefir verið með fiskverkunina, að fela eftirlitið með henni, er ullina á að senda til útlanda, trúverðugum manni eða mönnum. Til þess að von sé um að ullarverðið hækki, þarf meginið af ullinni að batna með, svo er ekki gengur illa að hefja einstök „Parti“ þó betur séu verkuð en altént gerist upp yfir hið almenna ullarverð. Þingeyingar sem síðustu 20 árin hafa haft betri ull en allir aðrir, hafa allan þann tíma verið að stríða við að fá meira fyrir hana en ullarverðið er alment og hefir ekki tekist það fyr en fyrir 3 árum síðan, og stafar það af því að ullarkaupmönnum hefir ekki þótt borga sig að vera að kveða upp hærra verð fyrir smásendingar. Það er hin mesta nauðsyn að koma á ullarmati nema því að eins að komið sé upp þvottastöðvum um land alt. Þessar 2.400 kr. sem veittar voru í þessu skyni er búið að nota upp. Ameríkuferðin sem Sigurgeir Einarsson fór á árinu 1911 kostaði yfir 2.000 kr. og síðan hefir hann haldið rannsóknum sínum áfram heima og erlendis. Þótt því ef ekki sé búið að borga alla fjárhæðina út, er búið að nota hana. Af þessum ástæðum er þingsályktunin, sem hér er til umræðu framkomin.

Tillagan er borin fram með það fyrir augum, að stjórnin geti með væntanlegu samþykki næsta þings veitt það fé, sem nauðsynlegt kynni að vera, til þess að Sigurgeir Einarsson geti haldið áfram rannsóknum á ull.