23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

96. mál, verkun og sala ullar

Björn Kristjánsson:

Eg hafði hugsað mér að segja fáein orð, en er illa við því búinn, því eg gætti ekki að því, að það var á dagskrá í dag.

Það sem gefur mér meðal annars tilefni til að skifta mér af þessu máli, er að eg mælti á móti fjárveitingunni til ullarrannsóknar sendimannsins á síðasta þingi.

Eg vil þá fyrst taka fram, að verð ullarinnar miðast við gæði, samanborin við aðrar ullartegundir, þegar þær eru allar jafn hreinar. Notagildið eitt skapar verðið. Þess vegna er það, að það getur ekki haft nein áhrif á sannvirði þessarar vörugreinar, hvert hún er vel þvegin, óþvegin eða illa þvegin, ef hún að eins kemst óskemd á markaðinn, því tegundin, notagildið, er hið sama. Hér hlýtur því tegundin að vera verðsett, en ekki í hvaða ásigkomulagi varan er þegar hún kemur óskemd á markaðinn. Og þar sem tegund ullarinnar og notagildi hlýtur að vera hið sama, hvort sem ullin kemur vel hrein eða illa þvegin á markaðinn, þá virðist það liggja í augum uppi, að engin trygging sé fyrir því að landið fái meira fyrir ull sína þó all mikið sé lagt í kostnaðinn til þess eins, að þvo hana betur.

Þegar notagildi eins punds af ull er 1 kr. virði, þá liggur í augum uppi að kaupandinn gefur ekki meira en 1 kr. fyrir l,2/10 pd. af ullinni ef í henni eru samkvæmt venju 20% af óhreinindum.

Afleiðingin af því að um 20% er að jafnaði af óhreinindum í ull samkvæmt tugum ára reynslu er engin önnur en sú, að menn fá minna fyrir pundið, en ef ullin væri laus við öll óhreinindi, með öðrum orðum; það kemur alveg sama upphæðin í vasa bænda, hvort sem þeir selja vöruna hreina eða óhreina, því verðið er sett á notagildi vörunnar samkvæmt margra ára reynslu.

Auðvitað má ullin ekki vera svo illa verkuð að hún hitni eða skemmist í flutningnum En vel þvegin ull getur skemst í flutning ef hún er eigi vel þur, nærri því eins og óþvegin ull.

Ef menn vilja athuga skýrslu, sem nýlega kom út í „Birkibeinum“ um útflutning á ull frá nokkrum löndum, þá sjá menn að ullin er flutt út frá sama landinu jöfnum höndum þvegin og óþvegin, og það væru menn ekki að gera, ef þeir töpuðu við það.

Og ekki höfum við mikið fyrir að þvo haustullina okkar, og fæst þó tiltölulega hærra verð fyrir hana en vorull, þegar óhreinindin eru frá dregin, því notagildi haustullar er meira en vorullar af því hárin og togið eru ekki fullmynduð.

Háttv. þm. þekkja að t. d. saltfiskur, sem er þó neyzluvara, er seldur blautur upp úr salti og full verkaður. Engum dettur í hug að gefa eins mikið fyrir pundið í honum blautum eins og þurum. Heldur er notagildi eins punds af þurrum saltfiski matið, og verðið á vota fiskinum þar eftir. Og kunnugir menn vita upp á hár hvað mörg pund af votum saltfiski fer í skippund af þurrum fiski, og hvað kostar að þvo það og þurka. í báðum tilfellunum fá menn því það sama fyrir fiskinn hvort sem hann er þveginn. og þur eða óþveginn og blautur. Notagildið er borgað en ekki útlit eða ástand vörunnar.

Ástæðan til þess að íslenzk ull er í lægra verði á útlendum markaði en sum önnur ull, er ekki útlitið eða verkunin, heldur hvað ullin er gróf og togið, sem hvergi er eins gróft eins og hér, einkum á Suðurlandi. Þess vegna er norðlenzk ull í hærra verði en sunnlenzk, að hún er togminni og finni í sér, sem einkum mun stafa af því, að þar eru ekki eins stórfeldar rigningar eins og á Suðurlandi.

Væri um það að ræða að hafa eftirlit með útflutningi ullar, þá væri beinasta leiðin að haga því eins og með mat á saltfiski, að setja kaupmönnum ragara, og láta þá merkja ullarpokana eftir gæðum, með lögákveðnum merkjum, en láta sér aldrei detta í hug að setja upp þvottastöðvar á hverri höfn, með hóp af opinberum starfsmönnum, því engin vissa er fyrir að það svari kostnaði.

Eg hefi ekkert á móti því að manni þeim, sem sendur var þessa forsendingu að rannsaka meðferð á ull, sé bætt það, sem hann hefir eytt til ferðarinnar úr sínum vasa. Það er allrar virðingarvert að hann hefir sýnt áhuga á því að verða að liði, en eg er á móti því að vitleysunni sé haldið áfram, og því greiði eg atkvæði á móti tillögunni.