23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

96. mál, verkun og sala ullar

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Eg vildi að eins segja örfá orð. Mér virðast báðir háttv. ræðumenn er síðast töluðu fljúga svo hátt, að vafasamt sé, að þingmenn fylgist með.

En málið er mjög einfalt og óbrotið. Hér er eiginlega ekki um annað að ræða en það: hvort betra sé að flytja út hreina ull eða óhreina. Það er auðvitað hægast og umsvifaminst fyrir seljanda að láta kaupanda sjá um hreinsunina. En hvort það sé arðvænlegra, það er annað mál. Allir vita, að það er fyrirhöfn að hreinsa ullina, og sú fyrirhöfn hlýtur að kosta nokkuð. Það, sem hún kostar, verður kaupandi óhreinsuðu ullarinnar að draga frá, því verði, sem hann gæti gefið fyrir hana fullhreinsaða. Og hann gerir það auðvitað svo rækilega sem hann getur. Og það er víst, að hann tekur æfinlega meira en fyrirhöfninni nemur. Það er því auðsætt, að seljandi tapar á því að selja ullina óhreinsaða. Og mikils væri það vert, ef við hefðum fullkomin hreinsunartæki, svo auðið væri að alhreinsa alla ull. Þá yrði ullarverðið miklu hærra.

Það er á allra vitund, að saltfiskverkun borgar sig vel. Þess vegna er það að eins neyðarúrræði að selja blautan fisk, eins og margir verða að gera. Fiskimanninum er lang bezt að búa fiskinn að öllu undir markaðinn, enda gera það allir þeir sem geta. Sama mundi verða með ullina.

Ef greina skal vöru eftir gæðum, þá verður það ekki gert fyr en hún er full gerð. Það er líka eitt, sem mælir með ullarverkuninni.

Auðvitað hefir loftslagið áhrif á ullargæðin. Og þó loftslagið hér á landi sé ekki sem allra hentugast í því tilliti þá er íslenzk ull góð vara samt. Og því meira sem við getum gert að ullinni, þess færri verða milliliðir milli neytanda og framleiðanda, og þess betra verð fáum við fyrir hana.

Til gamans vil eg að lokum taka það fram, sem auðvitað kemur ekki þessu máli við, að óheppilegt hefði það verið ef háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði verið alinn og uppfæddur undir suðrænni sól, fyrst hann er eins bráðlyndur og raun er á orðin, þótt fæddur sé og fóstraður hér á norðurhjara veraldar.