23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

96. mál, verkun og sala ullar

Björn Kristjánsson:

Enn hefir ekkert verið hrakið af ástæðum mínum.

Hv. þm. 1. Árn. (S. S.) telur mikið unnið ef óhreinindin í ullinni færðust úr 30% niður í 12%. Það má vera En það er þó engan veginn víst, að landið fengi meira fyrir ullina, þó svo yrði. Að minsta kosti er eftir að sanna það.

Öðru máli er að gegna um smjör, því það er neyzluvara, og fer notagildi hennar eftir smekk, eða eftir alt öðrum mælikvarða.

Íslenzk ull er gömul verzlunarvara, eg margra ára reynsla hefir fært mönnum heim sanninn um það, hversu mikið þarf að draga frá þunga óþveginnar ullar, til að vita þunga hinnar þvegnu, og um leið verðið.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að ull frá Skotlandi og Rússlandi væri ekki betri en íslenzk ull. Það má satt vera. En þó ber þess að gæta, að sú ull kemur öðruvísi á markaðinn en íslenzka ullin. Það fé, sem sú ull er af, er alt klipt og ullin flókalaus með öllu. Mér er ekki kunnugt, hvað sú ull selst, og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir ekki heldur gefið neinar upplýsingar um það. En fróðlegt væri að bera það saman við verð íslenzkrar ullar.

Gleðilegt þykir mér það, að hv. þm. viðurkennir, að verð ullarinnar eigi að miðast við notagildið.

Viðvíkjandi því sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði um það, að bezt væri að Íslendingar verkuðu alla ull sína sjálfir, þá efast eg um að það sé rétt. Ullin er aldrei þvegin svo, að vélarnar þurfi ekki að hreinsa hana betur. Og sú hreinsun kostar vélarnar lítið, en mundi kosta okkur mikið.

Að blautfisksala sé neyðarsala, það er stundum en stundum ekki. Hér í Rvík, og sjálfsagt víðar, eru margir glöggir fiskimenn, sem vita með vissu, hve mikið af blautfiski fer í skippundið af verkuðum saltfiski, og geta því alveg vitað um verðið.

Mér virðist því andmæli mín alveg óhrakin enn.