23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

96. mál, verkun og sala ullar

Tryggvi Bjarnason:

Menn hafa fundið til þess og finna það altaf betur og betur, hve verð íslenzkrar ullar er tiltölulega lágt og breytilegt, og hafa altaf betur og betur fundið til þess að alt samræmi vantaði í verkunina, enda er ekki ofsögum af því sagt, að samræmi vanti og ekki nægilega vönduð öll meðferð ullarinnar, t. d. tekið úr henni alt, sem einhverra orsaka vegna er ekki hægt að verka svo vel sé.

Það er flestum ljóst, að nauðsyn er á samræmi og festu í verkun hverrar vöru, engu síður ullar en kjöts eða fisks.

Það þyrfti að komast á, að ullin yrði flokkuð og merkt, svo kaupmaðurinn hafi tryggingu fyrir því, að það sem hann kaupir undir ákveðnu merki, svari til þess sem hann væntir að fá.

Hv. 1. þm. G. K. (B. K.) áleit og hélt því fast fram að ullin hefði sama notagildi, hvort sem hún væri þvegin eða óþvegin, þur eða blaut. Þetta hygg eg ekki rétt. Sigurgeir Einarsson hefir sagt mér, að oft væri ull skemd í þvotti, bæði þvæist sauðfitan úr henni ef þvælið væri of heitt, og það væri skemd á henni, einnig kæmu bláþræðir á hárin og af hvorttveggju þessu missir ullin notagildi. Það er því alveg rangt sem hv. 1. þm. G. K. (B. K.) heldur fram, að notagildi ullar sé altaf við sama, hvernig sem verkunin er. Efast eg ekki um, að hann, Sigurgeir Einarsson, viti þetta betur en flestir aðrir, og betur en hv. 1. þm. G. K. (B. K.).

Eg þykist ekki í neinum vafa um, að ef samræmi kæmist á um þvottinn og verkunina, þá væri stórt spor stigið í áttina til þess að hækka verðið á ullinni og sérstaklega til þess, að það yrði ekki eins breytilegt. Svo er á það að líta að ef ullin er flutt út óhrein eða illa þvegin verður að gjalda frakt af óhreinindunum og sömuleiðis toll af þeim, þar sem ullin er tolluð t. d. í Ameriku. Þá þarf að komast samræmi á fleira en þvottinn, t. d. má aldrei sjást mor í ull, aldrei mislitir lagðar innanum hvítu ullina o. s. frv. Eg er í engum vafa um að þetta samræmi kemst seint á, nema eftirlitið sé gott og reglur gefnar hvernig ullin eigi að vera til þess að tiltekið merki megi setja á hana til útflutnings.

Eg er því eindregið á því að þingið hafi tekið rétta stefnu í þessu máli og að sjálfsagt sé að halda svo áfram, enda ekki miklu til kostað af landssjóðs hálfu, þótt veitt séu nokkur hundruð kr, þar sem hinsvegar má vænta að árangurinn verði talsverður.

Hvað ullargæðunum viðvíkur þá koma þau ekki ullurverkuninni við. Það er fjárræktin sem á að vinna að því að bæta ullina á fénu.