23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

97. mál, kosningarlög

Flutn.m. (Matthías Ólafsson):

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að síðan kosningarlögin komu til framkvæmda, hafa þau að ýmsu reynst óhentug. Fjöldi kjörseðla hefir að jafnaði orðið ónýtur og af því risið missætti og deilur.

Að seðlarnir hafa ónýzt fyrir mönnum, er sumpart vegna þess, að menn eru svo fáfróðir, en sumpart vegna þess, að kosningarathöfnin er alls ekki svo auðveld, sem skyldi. Það er ekki létt verk fyrir allsendis óæfða menn að gera krossana vel, enda tekst mörgum það illa. Þetta er oft vegna þess að borðin, sem á er ritað, eru slæm, og auk þess er vanalega fát á mönnum við kosningar, svo þeir gera annað en það, sem þeir ætla að gera.

Af þessum ástæðum hefi eg lagt það til, að menn þyrftu ekki að nota nein verkfæri við kosningar, en að kosningarathöfnin sé að eins fólgin í því að leggja miða ofan í kassa. Og það verður naumast talið vandaverk.

Til að koma í veg fyrir það að seðlarnir verði margbrotnir, hefi eg lagt það til að þeir séu gerðir úr stífu efni og gegnstungnir í miðju, svo létt sé að leggja þá tvöfalda.

Af þessu leiðir, að hafa verður tvo atkvæðakassa, annan fyrir þá seðla, er nafn þess er kjósandi kýs, er á, en hinn fyrir seðla þá, er bera nafn þess er kjósandi hafnar. Ef kjósandi tekur misgrip og leggur skakkan seðil í atkvæðakassann, þann sem gilda á, þá verður ekki við því gert, hann kýs þá að eins annan en hann vill og verður að gjalda þess. Kjörstjórnin verður að eins að gæta þess, að kjósandi leggi ekki nema einn seðil í atkvæðakassa einmenningskjördæmis, en tvo seðla í kassa tvímenniskjördæmis eða fleirmennis.

Sumir vilja taka gilda kjörseðla sem að eins bera með sér, hvern hafi átt að kjósa, en það er ekki gott, því oft má merkja seðilinn, bæði með línulaginu og öðru.

Ennfremur er lagt til, að enginn frambjóðandi megi sitja í kjörstjórn, og get eg naumast hugsað mér að ekki megi fá mann í hans stað. En út af því, að frambjóðandi sitji í kjörstjórn, geta risið deilur, eins og skemst er á að minnast.

Einnig er það lagt til, að talning atkvæða megi ekki fram fara utan kjördæmis. Þetta er gert vegna þess, að bæði bakar slík talning kostnað og svo er kössunum teflt í hættu með löngum flutningum. Ennfremur er ilt að kjósendur og frambjóðendur eigi ekki góðan kost á því, að vera viðstaddir talningu atkvæðanna.

Þetta er vel framkvæmanlegt, því ef sýslumenn geta látið skrifara sína eða hreppstjóra halda manntalsþing — og það hafa þeir gert — gæti kjörstjórnaroddviti alveg eins falið þeim, eða öðrum, að telja atkvæði. Kjörstjórnaroddviti gæti líka verið dauður, þegar telja skyldi, og þá yrði þó einhver að verða til þess.

Eg veit vél, að kosningin í Vestur-Ísafjarðarsýslu í haust varð miklu dýrari vegna þess, að svo langt þurfti að flytja atkvæðakassana, og að kössunum var teflt í hættu.

Ef útlit hefði verið fyrir það, að sþ. yrði stjórnarskrá á þessu þingi, hefði eg komið fram með frumv. um þetta efni, en af því svo er ekki, læt eg nægja að snúa málinu til stjórnarinnar, og benda á helztu agnúana á gildandi kosningarlögum.

Að svo mæltu fel eg deildinni málið og vænti góðrar meðferðar.