13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Fyrirspyrjandi (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er eiginlega óþarfi að taka til máls, því fyrirspurnin spyr sjálf alls þess, sem ætlast er til svars upp á. Spurningin er vakin af því að kunnugt er að leyft hefir verið að geyma vínföng hér á höfninni, án þess að tollur hafi verið greiddur af þeim, og þau afhent útlendum fiskiskipum eftir hendinni.

Að þetta sé svo, hefir verið upplýst bæði af skrifstofustjóra í viðkomandi stjórnardeild, og svo hefir háttv. fyrverandi ráðherra kannast við það, þegar eg spurði hann. Nú er spurt um með hverri lagaheimild og af hverjum ástæðum þetta sé gert.

Mér skilst að engin lagaheimild geti verið til slíks, en efast hins vegar ekki um að stjórnin hafi haft einhverjar gildar ástæður til að gera þessa undantekningu frá lögunum. Það eru þessar ástæður, sem fyrirspyrjendurnir vildu að gerðar væru heyrinkunnar.

Það er ekki rétt aðferð, sem hér hefir verið viðhöfð; réttara hefði verið að gera bráðabirgðalög, sem heimiluðu landstjórninni að gera slíkar undantekningar. —

Eg hafði búist við að geta haft fyrir mér stjórnarráðsúrskurðinn, en mér var neitað um að fá hann nema með leyfi ráðherra, og mér var jafnvel neitað um að fá að lesa hann nema eg gæti sýnt leyfi ráðherra til þess, svo það sýnist vera einhver leynd yfir þessu.

Eg skal nú ekki orðlengja þetta frekar, en vona að hæstv. ráðherra (H. H.) svari og geri grein fyrir ástæðum stjórnarráðsins.