13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Kristján Jónsson:

Eg þarf ekki miklu að bæta við það, sem hæstv. ráðh. (H. H.) sagði. Eins og skjölin um þetta efni, sem liggja í stjórnarráðinu bera með sér, er hér ekki um neina undanþágu að ræða, heldur einungis um skilning á vissri tiltekinni lagagrein, og til stuðnings þeim skilningi hafði eg meðal annars umsögn þess manns, sem frá upphafi hefir haft einna mest afskifti af þessu máli, skrifstofustjórans á 3. skrifstofu, sem er einn af höfundum bannlaganna, og sem altaf hefir verið leitað til, þegar um skilning á þeim hefir verið að ræða, og var hann mér samdóma um þennan úrskurð. Eg held fast við það, að hér er um enga undanþágu að ræða, sbr. síðasta lið 5. greinar í lögunum frá 30. júlí 1909.

Þessar 17 tunnur af rauðvíni voru eigi fluttar í land, og það var aldrei ætlast til þess að þær yrðu fluttar í land. Nú er eigi að lögum ætlast til þess, að tollur sé heimtaður af öllum vínföngum, sem koma inn á landhelgissvæðið, enda væri ómögulegt að framfylgja því. Tollur er að eins heimtaður af ölföngum, sem í land eru flutt.

Það er sægur af skipum, sem um landhelgina ferðast, full af víni og öli, og veit eg ekki til að nokkur lögreglustjóri taki toll af því. Það væri ómögulegt að heimta þann toll, enda alveg rangt, eins og hæstv. ráðh. (H. H.) líka sagði. Það var heldur aldrei ætlast til þess, að þetta vín væri flutt hér til lands, heldur átti það að fara til Newfoundlands með 2 skipum, sem þangað áttu að fara, og var þetta vín skipsforði þeirra.

Ekki var hér heldur um neina sölu áfengis að ræða. Vínið var eign þessara skipa, sem voru sérstaklega nafngreind, og var það sent þeim sem eign þeirra og forði þeirra.

Hvort þetta kæmi í bága við aðflutningsbannlögin, veltur á því hvernig 5. gr. þeirra laga, síðasta málsgr. hennar, er skilin. Eg skildi hana þannig, með ráði þeirra, sem bezt máttu um það vita, að til þessa væri full heimild, að telja þessi vínföng hér eigi í land flutt, og var þá eigi um það að ræða, að brotið væri gegn aðflutningsbannlögunum, og eg er enn á sömu skoðun, og skal eg svo ekki bæta meiru við orð hæstv. ráðh.

Annars get eg eigi leitt hjá mér að láta í ljósi, að eg efast um að fyrirspurn eins og þessi geti verið sprottin af vandlætingasemi, og er mér næst að ætla, að hér liggi aðrar ástæður fyrir henni, sem eg þó vil ekki fara lengra út i. Hér er ekki ástæða til að gera mikið veður úr þessu máli, því að það er víst, að enginn innflutningur víns hefir hér átt sér stað. Þetta vín var hér einungis inni á landhelgissvæðinu í 3 vikur, og eg vil benda á það aftur, að daglega er hér í landhelgi fjöldi af vöruflutningsskipum, mannflutningaskipum og fiskiskipum, sem öll hafa áfengi innanborðs.

Að ætlast til að lögreglustjórar taki toll af vínfangabirgðum þeirra er ómögulegt, jafn ómögulegt, eins og að banna þeim að koma inn fyrir landhelgislínuna.