13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Ráðherrann (H. H.):

Eins og eg hefi tekið fram, er hér um skilning á lögum að ræða, og er spurningin sú, hvort fyrir liggi brot eða ekki. Mér hefir verið kent svo, að undir dómstólana heyrði, að skera úr slíkri spurningu. Þingið færi út fyrir valdsvið sitt, ef það vildi setja sig í dómarasæti um þetta efni. — Samkvæmt stjórnarskránni á þingið að eins að gefa lög, og getur ekki skýrt lög nema með nýjum lögum. Það er því varasamara fyrir þingið að taka að sér dómsúrskurð í þessu efni og því varasamara sem lögfræðingunum ber ekki saman um það að hér sé í nokkru farið í bága við ákvæði laganna, hvað þá um það, að lögin séu beint brotin,

Háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B.) vildi halda því fram, að enginn munur væri á þurru landi og landhelgissviðinu. Þó að eg auðvitað játi að löggjafarvald landsins nær einnig til landhelginnar eins g þurrlendisins. Þá get eg engan vegin verið honum sammála um, að öll lög gildi jafnt fyrir sjóinn eins og landið. Það er alt af munur á sjó og landi sem gerir ómögulegt, að sömu reglurnar gildi þar. Það kemur líka beint fram í bannlögunum sjálfum 5 gr. sbr. 1. gr. að þau hafa aðrar reglur fyrir landhelgina en landið.

Í 1. gr. er bannað að flytja áfengi til Íslands, en samkvæmt 5. gr. má þó flytja áfengi inn á landhelgissviðið og geyma það í skipi á höfnum inni, eins og áður er sýnt. Þar er auðsætt, að munur er gerður á þurru landi og landhelgi á sjó, enda væri algerlega óframkvæmanlegt að halda uppi fyrirmælum sem bönnuðu að flytja áfengi inn á landhelgissviðið eða um það innan 3 sjómílna frá landinu.

Eg álít ekki heldur hægt að segja að tolllögin hafi verið brotin með þessu, því ákvæði þeirra eiga að eins við vörur sem eiga að flytjast inn til landsins. Það er að eins til hægðarauka við innheimtu tolls af innfluttum vörum, að svo er mælt fyrir að tollur skuli talinn fallinn í gjalddaga þegar skip er búið að hafna sig, en því hefir aldrei verið haldið fram að toll eigi fyrir það að borga af öllu því er kemur hingað inn á einhverja höfnina. Það hefir alt af viðgengist að skip hafa flutt vin hvort til annars og afhent það fyrir innan landhelgislínuna ýmsar tollskyldar vörur, sykur, kaffi, tóbak og áfengi. Enda er þetta í fullu samræmi við það að útlend fiskiskip greiða ekkert útflutningsgjald af afla þeim er þau fá hér, þó þau komi með hann inn fyrir landhelgi; þar er landhelgin heldur ekki skoðuð sama sem þurt land.

Háttv. 1. þingmaður Rvk. (L. H. B.) sagði að afhendingin á þessum 17 tunnum á rauðvíni til skipanna, sem þær voru sendar til, hlyti að vera annað hvort sala eða veiting. Nei. Hún er hvorugt! Skipin tóku þar að eins við sinni eigin eign. Þau eiga eftir gildandi lögum í Frakklandi að hafa vissan skamt af víni til skipsforða. Þetta er því að eins sent skipunum af útgerðarmönnum til þess að fullnægja lögum þeim er þeir eiga að hlýða, en ekki selt eða veitt hér við land.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að samkvæmt þessar skýringu, þá mundu kol sem geymd væru á sama hátt hér á höfninni vera undanþegin tolli, ef kolatolsfrv. í Ed yrði samþykt. Það er alveg rétt, að ef kolatollur kæmist á og til þess væri ætlað að útiloka það, að skip gætu fært hvert öðru kol, er látin væri í skip úr skipi í landhelgi, þá yrðu að vera um það alveg sérstök, ótvíræð ákvæði. Þess vegna áleit milliþinganefndin sæla og marg lofaða nauðsynlegt að setja bæði í kola- og steinolíufrv. ákvæði um það, að enginn mætti afhenda kol eða steinolíu á landhelgissvæðinu, nema einkaleyfishafi, svo að landssjóður misti ekki tekjur. En í gildandi tolllögum eru engin tilsvarandi fyrirmæli.