13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Pétur Jónsson:

Eg vil taka það fram, að þegar ályktað var í skattamálanefndinni að gera þessa fyrirspurn, þá var það með því skilyrði og samkomulagi, að hún væri algerlega „objektiv“, og að ekki væri annar tilgangur með henni en að fá upplýsingar um málavexti að sögu sem hafði gengið um það, að undanþága hefði verið veitt frá bannlögunum. Framsögumaður átti ekki að flytja annað en það, sem fólgið er í fyrirspurninni eins og hún hljóðar og átti því ekki að gera neina tillögu frá nefndarinnar hálfu. Eg skal ekki fara út í málið sjálft, eða fara að skera úr hverir af lögfræðingum þeim er talað hafa, hafi réttara fyrir sér, því venjulega fer það ofan við minn skilning þegar þeir deila. En þess vil eg geta, að mér virðist það eðlilegt að þær vörur séu tollfrjálsar sem ekki eiga að fara í land; og sömuleiðis finst mér það heppilegt og eðlilegt, að heimilt sé að flytja vín inn á hafnir, ef trygging er fyrir því að það verði flutt frá landinu aftur og þess sé ekki neytt innan umdæmis okkar lands. Mér virðist þetta eðlilegt og vildi fyrir mitt leyti óska að lögin væru skýrð þannig, að það sem eðlilegast er yrði ofan á.

Eg vil benda á, að það er athugavert fyrir okkur leikmenn hér í deildinni að fara að gera okkur að dómurum í þessu máli, og eg vil því ekki greiða atkvæði með þessari ályktun, sem er þannig orðuð, að hún er áminning til stjórnarinnar um að sjá um að lögin verði ekki brotin aftur, og fellir þannig þann dóm, að hér hafi lögbrot átt sér stað; um það álít eg mig ekki færan að dæma, og vil eg ráða þeim þingmönnum sem ekki eru meira inni í lögum en eg, að gera það sama.