13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Jón Magnússon:

Eg ætla að taka það fram að háttv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) hefir ekki skilið orð mín rétt um tollfrelsi umgetinna frakkneskra fiskiskipa. Það úrskurðaði stjórnin fyrir 30—40 árum síðan — má eg segja að sá úrskurður sé birtur í stjórnartíðindunum, og þessum úrskurði hefir jafnan verið framfylgt hér síðan. Allstaðar er frönskum flutningaskipum leyft, án þess að greiða nokkurn toll, að flytja allar vistir — þar með áfengi — til frakkneskra fiskiskipa, taka veiði þeirra aftur í staðinn. Ef þessu á að breyta, þá álít eg það skyldu þings og stjórnar að láta Frakka vita, því Frakkar álíta sig eiga fullan rétt á þessu, eftir gerðum samningi eða samkomulagi.

Annars er engin ástæða til þess að orðlengja þetta mál, þetta er gömul venja, sem alstaðar er framfylgt þar er frakknesk fiskiskip koma að jafnaði, t. d. á Fáskrúðsfirði og Vestfjörðum.