13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Kristján Jónsson:

Eg þykist mega búast við því, að deildin leyfi mér að tala í mínu eigin máli enn einu sinni, þótt eg hafi talað tvívegis áður, þar sem svo sérstaklega stendur á, að þingið ætlar að gera sig að dómara yfir mér og gjörðum mínum. Ef þær sakir, sem á mig eru bornar, hefðu við nokkur rök að styðjast, væri það alveg óviðeigandi að deildin kvæði upp nokkurn dóm um þær. Málið hefði þá að sjálfsögðu átt að koma fyrir landsdóm. Mér er borið á brýn, að eg hafi brotið lög sem ráðherra. Það hefir reyndar verið sagt, að eg hafi líklega ekki gert það vísvitandi (Lárus Bjarnason: Það var fullyrt). Ef embættismaður í minni stöðu brýtur lög, eftir nákvæma yfirvegun, getur það naumast álitist öðruvísi en svo, að hann hafi gert það vísvitandi Það sem mér finst hér mestu máli skifta, er það, hvort framkvæmd bannlaganna hefir verið sett í hættu með þessum úrskurði mínum eða ekki. Og getur nokkrum manni komið til hugar að bannlögunum standi hin minsta hætta af honum! Eg skil það ekki. Við skulum gæta að því, hvað það er sem bannlögin banna. Þau banna að flytja hér í land áfengi (Lárus H. Bjarnason: Flytja til Íslands, rétt orðað), og vissulega er það full sannað, að enginn dropi af þessu umtalaða áfengi hefir verið fluttur hér í land. Á það er ekkert haft lagt — enda eigi unt að banna það —, að flytja áfengi inn á landhelgissvæðið og um það. Þetta vita allir. Fólksflutningaskipin sem hingað koma hafa byrgðir af áfengi og sömuleiðis botnvörpuskipin og önnur fiskiskip. Ef reynt væri að leggja nokkurt haft á þetta, mundu allar Evrópuþjóðir rísa upp á móti oss, þegar í stað.

Þar sem stendur hér í lögum „til Íslands“, þá getur það ekki þýtt annað en inn í landið, til þeirrar þjóðar, er landið byggir.

Þegar þetta skip kom hér voru fiskiskipin, er vínföngin áttu að fá, ekki hér á staðnum. Ef neitað hefði verið um þessa tilhliðrunarsemi hefði það að eins haft þá afleiðingu, að skipið, er vínföngin flutti, hefði legið hér á höfninni þangað til fiskiskipin komu hingað og gátu tekið við vínföngunum. Slíkt tíðkast oft, eins og háttv. þm. Vestm. (J. M.), bæjarfógetinn í Reykjavík hefir upplýst. Mér virðist gerður svo mikill hvellur út af þessu, að það sé í engu hlutfalli við málavöxtu. Hér er ekki að ræða um neitt brot á lögunum, og þó að þessi ráðstöfun mín álítist ekki í fullu samræmi við 5. gr. bannlaganna, þá getur hún ekki talist hættuleg frávikning frá þeirri grein, þegar þess er gætt, að ekki einn áfengisdropi hefir farið inn í landið.

Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða um þetta. Eg vildi að eins láta í ljós, að mér virðist það nokkuð hart, ef deildin gerir sig að dómara yfir mér, en það gerir hún ef þessi fyrsta rökstudda dagskrá verður samþykt.