21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Fyrirspyrjandi (Valtýr Guðmundsson):

Þegar viðskiftaráðunautsstarfið fyrst var stofnað — og þó einkum áður en það var stofnað — gerðu margir sér mjög glæsilegar vonir um árangurinn af því starfi. Menn ætluðust til, að þeir skyldu vera fleiri viðskiftaráðunautarnir, eða verzlunarráðunautarnir, sem menn þá nefndu þá, og sitja sinn í hverju landi, þar sem helzt yæri von um að finna nýjan markað eða markaðsleiðir fyrir íslenzkar afurðir, og jafnframt finna ný sambönd fyrir innkaup á erlendum varningi, sem hentugri væri til innflutnings hér á landi eða meiri hagnaðarvon af að kaupa hingað beinleiðis, en gegnum milligöngumenn þá í Khöfn, sem hingað til hafa mest verið notaðir. En nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn; nú virðast vonirnar um árangurinn af þessu starfi vera orðnar ærið daufar, svo daufar, að flestir virðast nú helzt óska, að þessi starfi yrði sem fyrst lagður niður.

Má vera, að þessar óskir séu nú ekki á fullum rökum bygðar, en hins vegar verður ekki með sanni sagt, að þær séu óeðlilegar eða ástæðulausar, þegar litið er til þess, hvernig þetta starf hefir hingað til verið rækt og hve nauðalítinn árangur það hefir borið. Því óhætt er að segja, að árangurinn hafi hingað til ekki að eins orðið nauðalítill, heldur blátt áfram alls enginn — að því er til gagnsins kemur. Hinsvegar verður því ekki neitað, að þessi starfsemi hafi orðið okkur að ýmsu leyti til ógagns-, en þess konar árangri virðist réttast að sleppa, því hann liggur svo fjarri því, sem til var ætlast.

Að svona hefir farið, er sumpart því að kenna, hvernig stjórnin framkvæmdi hugmynd Alþingis, og sumpart því, hvernig starfið hefir verið rækt af þeim manni, er til þess var kjörinn. Í stað þess, eins og Alþingi hafði til ætlast, að skipa fleiri viðskiftaráðunauta, sinn í hverju landi, á líkan hátt og með svipuðum launum eins og hina norsku viðskiftaráðunauta, sem hafa að launum frá 2.500—5.000 kr. (sbr. Alþt. 1911, A. 1383), þá skipaði stjórnin að eins einn viðskiftaráðunaut með 10.000 kr. launum, og svo lenti starfið á manni sem lítið eða ekkert skyn bar á verzlun, en sem jafnan hefir sýnt sig sem mikinn æsingamann í pólitík og engan skapstillingarmann, en frekan mjög til fjárins og óhlífinn við landssjóðinn. Þegar nú hér við bætist, að sá maður, er starfinu gegnir, hefir sýnt því meiri vanrækslu, sem lengra hefir liðið, þá er ekki að furða þótt óánægjan hafi orðið almenn, og því hefi eg fundið mér skylt samkv. 31. gr. þingskapanna, að beiðast skýrslu stjórnarinnar um, hvers vegna þetta er látið ganga án þess að tekið sé alvarlega í taumana.

Eitt af því, sem hvað mest á ríður fyrir alla viðskiftaráðunauta, er, að þeir séu ekki neitt riðnir við pólitík eða flokkadrætti, enda eru viðskiftaráðunautar annara þjóða mjög grandvarir í þeim efnum. En það er öðru nær en því hafi verið að heilsa með viðskiftaráðunautinn okkar. Jafn skjótt og hann hafði tekið við starfinu, fór hann að halda pólitíska fyrirlestra og skrifa pólitískar æsingagreinar í útlend blöð, og að þessu urðu svo mikil brögð, að utanríkisráðuneyti Dana fann ástæðu til að kvarta undan þessu framferði hans, og fara fram á, að ginkefli væri stungið í munn honum. Þessu svaraði stjórnarráðið svo, að, eins og erindisbréf viðskiftaráðunautsins greinilega sýndi, lægi pólitísk starfsemi algerlega fyrir utan verksvið hans (sbr. Alþt. 1911, A. 1343: „Som Instruksen tydelig viser, ligger politisk Virksomhed helt udenfor Forretningskonsulentens Virkefelt“, og hefði stjórnarráðið nú gert ráðstafanir til, að hann léti sér slík orð um munn fara framvegis, sem eftir honum væru höfð, en skyldi það samt fyrir koma, þá mundi hann samkvæmt 6. gr. erindisbréfsins verða sviftur starfinu og kvaddur heim tafarlaust (sbr. bréf stjórnarráðsins 17. Des. 1909). En þessum úrskurði stjórnarráðsins hefir verið mjög slælega framfylgt. Því þótt viðskiftaráðunauturinn hafi að vísu síðan að mestu leyti hætt við pólitískar æsingaræður og blaðagreinar í útlöndum, þá fer því mjög fjarri, að hann hafi hætt allri pólitískri starfsemi. Hann hefir þvert á móti síðan stofnað og gefið út pólitískt æsingablað hér á landi, og hann hefir bæði haldið pólitíska fundi og setið hér á þingi mánuðum saman, bæði 1911 og nú í ár, og með því bæði vanrækt skyldur sínar sem viðskiftaráðunautur og berlega brotið á móti 4. og 6. gr. erindisbréfsins, eftir því sem það er skýrt af stjórnarráðinu sjálfu, sem samið hefir bréfið og út gefið, og því ætti bezt að vita, hvernig ætti að skilja það. En hér við bætist einnig, að þegar fjárveitingin til viðskiftaráðunautsins var samþykt á síðasta Alþingi með eins atkvæðis mun, þá var það af þeim þingmanni, sem reið baggamuninn, gert að beinu skilyrði fyrir fjárveitingunni, að viðskiftaráðunautnum yrði ekki látið haldast uppi að hafa hin og önnur störf með höndum, svo sem þingmensku, og að dvelja svo og svo lengi hér og vanrækja þannig starf sitt í útlöndum (sbr. Aþt. 1911, B. I, 272). Það hefði því að minni skoðun verið skylda stjórnarinnar, að gera viðskiftaráðunautnum tvo kosti: annað hvort yrði hann að láta bæði af þingmensku og blaðamensku og gefa sig allan við ráðunautsstarfinu í útlöndum, eða þá að afsala sér ráðunautsstarfinu, því þetta tvent gæti ekki saman farið. Það er skylda stjórnarinnar að sjá um, að fjárveiting þessari, sem þingið hefir veitt til ráðunautsstarfssins, sé varið samkvæmt tilgangi þess. En tilgangur þingsins var óefað sá, að viðskiftaráðunauturinn jafnan dveldi í útlöndum, enda segir svo í 1. gr. erindisbréfs hans:

„Viðskiftaráðunauturinn er ætlast til að hafist við í þeim löndum, er landsstjórnin tiltekur, og skal hann auglýsa, í hverju landi, hvar og hve lengi hann verður þar í það sinn. Þessi lönd munu verða Norðurlönd, Þýzkaland og England“ (Alþt. 1911, A. 1342).

Mér er nú spurn: Er það landsstjórnin, sem hefir tiltekið, að viðskiftaráðunauturinn skyldi dvelja mánuðum saman hér á landi við pólitísk störf og blaðamensku? Eg get ekki hugsað mér það, heldur mun viðskiftaráðunauturinn sjálfur hafa fundið upp á þessu, stundum með leyfi stjórnarinnar, en stundum eins og haustið 1911, í beinu óleyfi hennar. Þetta er beint brot á erindisbréfinu af hálfu viðskiftaráðunautsins og vanræksla frá stjórnarinnar hálfu í að gæta hagsmuna landsins og landsmanna. Því allir sjá, að því fé er sama sem fleygt í sjóinn, sem varið er til að launa viðskiftaráðunautnum, þegar hann dvelur hér á landi við önnur störf. Og það er ekki neitt smáræði, sem þannig hefir verið látið ganga í súginn.

Á fjárhagstímabilinu 1910—1911 voru árslaun viðskiftaráðunautsins 10.000 kr. eða 20.000 kr. fyrir fjárhagstímabilið. Og af þessu tímabili ver hann ekki minna en 13 mánuðum til Íslandsferða og dvalar á Íslandi, og vanrækir þann veg starf sitt í meira en helminginn af tímanum. Hann fer frá Khöfn til Íslands í júlílok 1910 og kemur aftur til Khafnar í lok októbermánaðar. Það eru 3 mánuðir. Svo fer hann aftur frá Khöfn til Íslands í byrjun desembermán. og dvelur þar allan veturinn við þingstörf o. fl., og kemur ekki til Khafnar fyr en undir lok júlímán. 1911. Þetta verða 7 mánuðir. Svo fer hann aftur heim til Íslands í lok ágústmánaðar eða byrjun septembermánaðar (eg hefi ekki getað fundið fyrir víst, hvort heldur er) og kemur ekki aftur til Khafnar fyr en í lok nóvembermánaðar. Þetta verða enn 3 mánuðir. Hann hefir þannig varið 13 mánuðum eða meira en heilu ári til Íslandsferða og dvalar á Íslandi, að nokkru leyti við launað starf, eins og þingmensku, og á þeim tíma gersamlega vanrækt ráðunautsstarfið, en þó tekið 10—11.000 kr. í laun sem viðskiftaráðunautur fyrir þennan tíma. Þetta verð eg að telja illa farið með fé landssjóðsins, og ekki kyn þótt gjaldendum landsins blæði í augum að sjá þannig farið með fé þeirra.

Eg kem þá að yfirstandandi ári, árinu 1912, og er þar sízt um framför að ræða, að því er snertir alúð viðskiftaráðunautsins við að rækja starf sitt eða hlífni við landssjóðinn. Fyrir fjárhagstímabilið 1912—13 er fjárveitingin til hans sundurliðuð, þannig að laun hans eru ákveðin 6.000 kr., en til ferðakostnaðar má verja alt að 4.000 kr. eftir reikningi.

Frá því 1. janúar og til 24. maí þ. á. dvelur viðskiftaráðunauturinn í Khöfn, að undanskildum, að því er virðist, svo sem mánaðartíma, sem hann dvelur í Kristjaníu. Eg get ekki sagt upp á víst, hve langan tíma ferðin þangað hefir tekið, því skýrslur hans eru svo ógreinilegar Svo fer hann frá Khöfn 24. maí heim til Íslands, kemur hingað 2. júní og hefir setið hér síðan; en hve lengi hann ætlar að dvelja hér á landi, er enn óséð. Hann hefir mér vitanlega ekkert um það auglýst í hérlendum blöðum, og eg minnist heldur ekki að hafa séð í neinu Khafnarblaði neina auglýsingu um dvöl hans þar, né hvar hann væri að hitta, þótt slíkt sé fyrirskipað í 1. gr. erindisbréfs hans. Og er þetta því beint brot á því, og það harla óþægilegt, ef einhver skyldi finna upp á því, að vilja nota hann eða hafa tal af honum.

Að því er það snertir, hvað telja beri með ferðakostnaði, þá er svofeld regla um það sett í bréfi stjórnarráðsins frá 9. marz 1910 (Alþ.tíð. 1911, A. 1344):

»Reglan virðist eiga að vera sú, að með aukakostnaði sé það eitt talið, er af ferðalaginu leiðir umfram hitt, ef haldið hefði verið kyrru fyrir heima, þ. e. þar sem dvalið er til nokkurra langframa“.

En hvernig hefir nú viðskiftaráðunauturinn fylgt þessari reglu? Þannig, að hann hefir bókstaflega reiknað öll þau dagleg útgjöld, sem hann hefir haft til ferðakostnaðar, þó hann hafi mestallan tímann setið kyr á hala sínum í Khöfn. Og þessi útgjöld hafa frá 1. jan.—2. júní numið kr. 1.557,12, en hve miklu þau muni nema meðan hann dvelur hér á landi, er ekki gott að vita, því þeir reikningar eru enn ekki fram komnir. Það verður nógu gaman að sjá þá. þegar þeir birtast. Og sannast að segja getur hann eftir hinni settu reglu með meira rétti reiknað sér ferðakostnað, meðan hann dvelur hér, af því hann er hér á ferðalagi, þótt ekki sé það í þágu ráðunautsstarfsins, heldur en fyrir þann tíma, sem hann heldur kyrru fyrir í Khöfn. Því þá á hann sannarlega að lifa af sínum 6.000 kr. launum. Til hvers væru þau annars ætluð?

Eg hefi í stjórnarráðinu fengið að sjá reikninga viðskiftaráðunautsins frá 1. jan. til 2. júní þ. á. Þeir eru 3 og hljóða þannig:

I. Frá 1. Jan —29. Febr. 1912.

Húsaleiga (Hótel Kongen af Danmark 1/1—7/1,

Fru Byes Hotel 8/1—17/1, Parkvejen 17/1 —17/1) kr. 122,00

Farseðlar til Oslóar og sömu leið aftur — 53,40

Fæði í 60 daga — 408,00

Þjórfé — 109,50

Af stöð og á — 5,25

Sporvagnar og bifreiðar . . — 21,50

kr. 719,65

II. Frá 1. marz-30. apríl 1912.

Húsnæði kr. 102,00

Fæði í 34 daga — 245,00

Þjórfé 1/3,—3/4 — 60,00

Akstur og flutningskostnaður — 7,00

Matarvist á Helmershus 4/4—30/4 — 143,72

Til neyzlu utan matvistar — 12,00

Sporvagnar — 3,00

Þjórfé 4/4—30/4 — 14,00

kr. 586.72

÷ afslætti á húsaleigu — 7,25

kr. 579,47

III. Frá 1. maí—2. júní 1912.

Matvist í 24 daga kr. 105,75

Til neyzlu utan matvistar — 20,00

Þjórfé — 15,00

Vagnar og flutningur — 5,00

Ferð frá Khöfn til Rvíkur — 98,25

Þjórfé — 12,00

Flutningur — 2,00

kr. 258.00

Við 1. reikninginn er svo látandi athugasemd:

„Með fæði er talið kaffi, drukkið til hressingar utan máltíða. Þó get eg eigi fyrir umliðinn tíma sagt, hversu mikið það er“.

Hins vegar er hvergi getið um vindla eða annað tóbak, né skóviðgerðir, á reikningunum, en annað virðist þar ekkert vanta af daglegum útgjöldum. Til þess eru þá máske launin ætluð, þessar 6.000 kr. En þar sem fæðispeningarnir eru reiknaðir all-ríflega, oftast um 7 kr. á dag, stundum meira, stundum nokkuð minna, og í maí ekki nema rúml. 5 kr., þá er þó ekki ólíklegt, að vindlar séu þar með taldir, því leitun mun á þeim matsölustöðum í Khöfn, þar sem fæði er selt svo dýrt sem reikningarnir sýna. Eg þekki þá ekki, og hefi eg þó verið búsettur í Khöfn í nál. 30 ár. Þá virðist og þjórféð vera full-ríflega reiknað, þar sem það er oftast framt að 2 kr. eða um 1,80 á dag, þó fyrir komi að það sé minna.

En það sem þó hér skiftir mestu máli, er, að af öllu þessu fé ber viðskiftaráðunautnum alls ekkert, samkvæmt reglu stjórnarráðsins sjálfs, nema fyrir ferðina til Kristjaníu, og tel eg því stjórnarráðinu skylt að neita að borga þessa reikninga.

En þessi ágengni við landssjóðinn hjá viðskiftaráðunautnum er engin ný bóla. Meðan hann hafði 10.000 kr. í föst laun, gerði hann landssjóðnum reikning fyrir rúml. 1.148 kr., aðallega fyrir lystiferðir til Ítalíu og Parísar. Því ekki verður séð, að þær ferðir hafi verið gerðar í neinum öðrum tilgangi en að skemta sér, enda árangurinn af þeim enginn annar. — Því þó viðskiftaráðunauturinn hafi verið að reyna að fóðra þetta ferðalag með því, að benda á markað fyrir íslenzka hesta í Rómaborg, silkikaup og ullarsölu í Mílanó, og sölu á íslenzkum matvælum til Suður-Þýzkalands, ef flutningsgjaldið væri ekki svo hátt og tollverndin svo mikil, að þetta væri þess vegna frágangssök, þá er slíkt hjal svo barnalegt, að mann stórfurðar á, að fullorðinn maður skuli leyfa sér að bera annað eins á borð. Hann hefði alveg eins getað sagt, að góður markaður mundi vera fyrir íslenzkan saltfisk í tunglinu, ef hægt væri að komast þangað.

Og hver hefir yfirleitt verið árangurinn af starfi viðskiftaráðunautsins? Mér hefir ekki tekist að uppgötva annan árangur af því, en að hann hefir verið að reyna að myndast við að senda stjórnarráðinu hinar fyrirskipuðu skýrslur, að minsta kosti eina á mánuði, eins og segir í erindisbréfinu. En hve húmbúgskendar þessar skýrslur oft hafa verið, má m. a. sjá af því, að hann hefir alveg eins sent þessar skýrslur fyrir þá mánuði sem hann hefir dvalið heima á Íslandi, stundum 7 mánuði samfleytt, og verður ekki annað af þessum skýrslum séð, en hann hafi altaf dvalið úti í löndum og verið þar að þinga við hina og þessa útlendinga um viðskifti. Og til þess að minna bæri á þessu húmbúggi, er hann hættur að staðsetja skýrslurnar eða geta um hvar þær eru ritaðar. Og í seinni tíð er hroðvirknin farin að ganga svo langt, að hann er líka hættur að dagsetja þær, og stundum eru þær ekki einu sinni undirskrifaðar. Þannig er skýrslan fyrir ágúst 1911 bæði óundirskrifuð og ódagsett, fyrir september s. á. ódagsett, fyrir janúar 1912 óundirskrifuð, ódagsett og ekki getið um hvar hún er rituð; fyrir marz og apríl ódagsett, og fyrir maí og júní vantar bæði undirskrift, dagsetning og staðsetning og meira að segja sjálft ártalið 1912. Þar stendur að eins „skýrsla fyrir maí og júní“. Þá er hann og til hægðarauka farinn að senda eina skýrslu fyrir hverja 2 mánuði, þó erindisbréfið heimti skýrslu „að minsta kosti einu sinni í mánuði“.

Og þá er ekki innihaldið sérlega burðugt. Vanalegast nú orðið ekkert nema að hann hafi átt tal við hina og þessa menn um viðskifti við Ísland, en enginn árangur getað af því orðið. Í hinum fyrstu skýrslum var þó dálítil viðleitni til að sýnast gera eitthvað, eins og t. d. þegar hann 1909 sendi stjórninni heilmikinn bálk af tillögum frá einhverjum dönskum lögmanni í Genúa, sem þó fékk þann vitnisburð hjá verzlunarráðuneyti Dana, að hann þætti fljóthuga og stórhuga, en fremur laus í rás, svo fara yrði varlega í að sinna tillögum hans. Hann hefði áður átt stóreignir, en væri nú illa staddur og ætti erfiðar fjárreiður (Atþt. 1911, A. 1366).

Þetta var nú helzta viðskiftasambandið, sem viðskiftaráðunauturinn gat bent þjóð vorri á.

Í annari skýrslu (nóv. 1909), skýrir hann frá, að 2 menn, annar danskur og hinn íslenzkur, hyggi á að verða nokkurskonar milligöngumenn fyrir íslenzka verzlun í Hamborg, og láti hann þessa getið, ef vera kynni að landsstjórnin vildi láta menn vita um það til hvatningar eða varnar (Alþt. 1911, A. 1350). En ekki dettur honum í hug að gefa stjórninni nokkra leiðbeiningu um það, hvort hún eigi að ráða mönnum til eða frá að skifta við þessa menn. Og til þess var þó því meiri ástæða, þar sem kunnugt var að annar þessara manna að minsta kosti hafði orðið gjaldþrota eða komist í kröggur fyrir vanskil, sem ekki var víst að stjórninni væri kunnugt um.

Úr hinum síðustu skýrslum viðskiftaráðunautsins er þess helst að geta, að hann skýrir stjórninni fleirum sinnum frá því (síðast í bréfi frá 9. marz 1912), að hann hafi verið að hvetja Iðnaðarmannafélagið í Rvík til að stofna lotterí, og vill auðsjáanlega fá stjórnina til að beitast fyrir framkvæmdum í því máli. Og í því skyni sendir hann henni prentaða áætlun (Plan) fyrir „Vare og Industri lotteri“ Dana, sem hafa megi til fyrirmyndar. Þetta mun koma flatt upp á flesta hv. þm., sem heyrt hafa ræður hv. viðskiftaráðunauts hér í deildinni fyrir nokkrum dögum, um hve háskaleg og siðspillandi öll lotterí væru. En í marz var hann þess hvetjandi við stjórnina, að þessi spilling væri flutt inn í landið, og benti henni á, hvaða útlent lotterí menn ættu að taka sér til fyrirmyndar. Má hér um segja, að skjótt breytist veður í lofti, og að fleiri vindhanar snúast skjótlega en þeir, sem sjást á bæjarburstunum.

Eg vil nú ekki þreyta háttv. deild á því, að tilfæra meira úr hinum nauðaómerkilegu skýrslum viðskiftaráðunautsins, heldur láta mér nægja að beiðast skýrslu stjórnarinnar um, hversvegna það er látið ganga, að hann vanræki starf sitt, sýni frámunalega hroðvirkni í skýrslum sínum og brjóti bæði erindisbréf sitt með því að fást við annarleg störf og dvelja langdvölum hér á landi, stundum í fullu leyfisleysi, ef ekki beinu banni stjórnarinnar, og að hann ennfremur sýni landssjóði dæmalausa ágengni í reikningum sínum, þvert ofan í þær reglur, sem stjórnarráðið sjálft hefir sett.

Eg get nú hugsað mér, að eg fái þau svör, að stjórnin þykist ekki hafa full tök á viðskiftaráðunautnum eftir því sem fjárveitingin til hans var orðuð á síðasta þingi. Eg hefi meira að segja sjálfur hallast að þeirri skoðun. En við nánari rannsókn hefi eg séð, að þetta er helber misskilningur. Í Nd. var að vísu aftan við fjárveitinguna til hans hnýtt þessari athugasemd: „Erindisbréf hans frá 30. júlí 1909 haldist óbreytt“ (Alþt. 1911, A. 1228). En þetta var felt í Ed., og í Sameinuðu þingi var liðurinn samþyktur þannig:

»Til Bjarna Jónssonar frá Vogi til viðskiftaráðunautsstarfa, samkvœmt erindisbréfi frá 30. júlí 1909 alt að 10.000—10.000 kr.

Þar af 6.000 kr. laun hvort árið, og alt að 4.000 kr. hvort árið til ferðakostnaðar eftir reikningi“.

(Alþt 1911, A. 1539). Og þannig hljóðar því liðurinn í fjárlögunum.

Eins og menn sjá, er hér ekkert ákveðið um að erindisbréf viðskiftaráðunautsins skuli haldast óbreytt. Það hafði verið farið fram á það og fyrst samþykt. En svo var það einmitt felt. Í lögunum stendur að eins að viðskiftaráðunautsstarfið skuli rækt samkvœmt erindisbréfi frá 30. júlí 1909. Og líti maður svo í erindisbréfið, þá stendur þar í 6. gr.: »Viðskiftaráðunauturinn verður að sœtta sig við þœr breytingar, er kunna að verða gerðar á erindisbréfi þessu“. Stjórnin getur því breytt erindisbréfinu, eins og henni sýnist. Og hún getur meira en það. Hún getur, ef því er að skifta, svift viðskiftaráðunautinn starfinu að fullu og öllu, ef hann vanrækir starfið eða brýtur erindisbréfið. Þar segir sem sé svo í 6. gr.:

„Hafist viðskiftaráðunautur nokkuð það að, er kemur í bága við hlutverk hans eftir þessu erindisbréfi eða fer út fyrir verksvið það, er honum er þar ætlað, má svifta hann starfinu og kveðja hann heim tafarlaust“.

Það dugar því lítið, þótt fjárveitingin til viðskiftaráðunautsins sé veitt upp á nafn, því það gildir því að eins, að öll starfræksla hans og framferði sé í fullu samræmi við ákvæði erindisbréfsins, en í því er bæði honum gert að skyldu að haga sér eftir fyrirskipunum stjórnarinnar, og henni heimilað að svifta hann starfinu, ef hann gerir það ekki.

Stjórnin hefir því full tök á viðskiftaráðunautnum, og enga afsökun, ef hún liður honum að vanrækja starf sitt og vera að vasast í annarlegum störfum.