21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Kristján Jónsson:

Hæstv. ráðh. (H. H.) tók það fram að hann hefði engin afskifti haft að stjórnarathöfnum þeim, sem hér eru gerðar að umtali og aðfinningarefni. Fyrir mitt leyti skal eg þá taka það fram að eg hafði ekki afskifti af viðskiftaráðunautnum fyr en eftir þinglok 1911, og get því ekki svarað til þess er áður hefir skeð í þessu máli.

Eg skal leyfa mér að benda á ákvæði gildandi fjárlaga hér að lútandi. Það hljóðar svo:

„Til Bjarna Jónssonar frá Vogi til viðskiftaráðunautsstarfa, samkvæmt erindisbréfi frá 30. júlí 1909 10.000 kr., þar af 6.000 kr. laun hvort árið og alt að 4.000 kr. hvort árið til ferðakostnaðar eftir reikningi“.

Um þessa fjárveiting urðu miklar umræður á þingi 1911, og tók eg þá fram hvernig eg skildi þetta ákvæði. Eg skildi það svo þá og skil það svo enn að með því hafi viðskiftaráðunauturinn verið tekinn undan umsjón og eftirliti stjórnarinnar, og sé hann nú að eins háður umsjón og eftirliti þingsins. Það var vilji þingsins að það eitt skyldi hafa eftirlit með honum. Stjórnin getur heldur ekki vikið viðskiftaráðunautnum frá starfi sínu og erindisbréfinu er heldur ekki hægt að breyta, annars væri tilvitnunin til erindisbréfsins frá 30. júlí 1909 í fjárlögunum heimska, og skildi eg hæstv. ráðherra (H. H.) svo, sem hann væri sömu skoðunar um þetta efni. Viðskiftaráðunauturinn á samkvæmt fjárlögunum heimtingu á launum sínum og ferðakostnaði eftir úrskurðuðum reikningum. Eg lít svo á sem þingið 1911 hafi lögfest erindisbréfið og öðruvísi getur þingið ekki litið á það mál, einmitt vegna þess hvernig þingið 1911 tók í málið. Eg hefi hvorki leyft né bannað viðskiftaráðunautnum pólitíska starfsemi hér á landi, því að til þess hafði eg enga heimild.

Erindisbréf viðskiftaráðunautsins bannar honum alls ekki pólitíska starfsemi hér á landi og hún er heldur ekki bönnuð í bréfi stjórnarráðs Íslands til utanríkisráðherra Dana frá 17. des. 1909, þar er að eins átt við að hann megi ekki taka þátt í eða standa fyrir agitation um íslenzk stjórnmál í útlöndum. Það kannast eg við að honum sé bannað og það hefir hann mér vitanlega ekki gert, að minsta kosti ekki síðan um þinglok 1911. Eins og eg tók fram áðan er ekkert í erindisbréfinu, sem bannar viðskiftaráðunautnum pólitíska starfsemi hér á landi og þegar Bjarni Jónsson var skipaður viðskiftaráðunautur var hann alþingismaður og honum var ekki sett neitt skilyrði um að leggja niður þingmenzku eða að hætta að fást við pólitík og þegar fjárveitingin af þinginu 1911 var stíluð beinlínis á nafn hans, var hann enn þingmaður og þó var honum ekkert skilyrði sett um að hætta við þingmensku eða aðra pólitíska starfsemi. Fjárveitingin er alveg skilyrðislaus. Að vísu hreyfði einn þingm. því í sameinuðu þingi, til þess að fóðra atkvæði sitt, að hann ætlaðist til að viðskiftaráðunauturinn fengist ekki við politík, en það ber ekki að skoða sem skilyrði — sízt frá þingsins hálfu; — það var að eins andvarp frá særðu hjarta þingmannsins. Eg verð því að halda því fast fram að stjórnin hafi ekki vanrækt skyldu sína þótt hún hafi ekki bannað viðskiftaráðunautnum af fást við pólitíska starfsemi hér á landi. Stjórnin hafði enga heimild til þess að skifta sér af því. Hefi eg því svarað fyrsta lið fyrirspurnarinnar út í æsar, svo að eigi verður í móti mælt.

Hvað annan lið fyrirspurnarinnar snertir — um dvöl hans hér á landi. Þá skal eg taka fram að síðan í þinglok 1911 minnist eg ekki að hann hafi dvalið hér á landi nema nokkur tíma í fyrra haust og svo á þessu þingi. Þegar viðskiftaráðunauturinn kom heim í fyrra haust skýrði hann mér frá að hann væri í viðskiftaráðunautserindum. Hann vildi koma á útflutningsfélagi meðal íslenzkra kaupmanna og þyrfti því við þá að tala og auk þess var mér kunnugt um að hann hafði fleiri störf með höndum, lútandi að viðskiftaráðunautsstarfsemi. Eg sagði honum þá, að stjórnin vildi engan dóm á það leggja, hvort þetta væri lögmætt erindi, viðskiftaráðunauturinn yrði sjálfur að ábyrjast það gagnvart Alþingi — en reyndar álít eg sjálfur að hann hafi haft lögmætt erindi hingað heim þá, enda er mér kunnugt um að hann hélt hér fund með kaupmönnum og fór norður um land er hann sigldi aftur og talaði við kaupmenn á viðkomustöðum skipsins. Þá virtist mér það ekkert annað en eðlileg afleiðing af því að viðskiftaráðunautnum var ekki bönnuð þingseta, að honum væri heimilt að koma hingað til landsins til þess að sitja á Alþingi. Ekki er mér heldur kunnugt um að viðskiftaráðunauturinn hafi önnur launuð störf á hendi en viðskiftaráðunautsstarfið. Eg hefi aldrei vitað þingmensku talda launað starf. Að vísu fá þingmenn fæðispeninga meðan þeir sitja á þinginu, en það er að eins endurgjald fyrir kostnað, og önnur borguð störf veit eg ekki til að viðskiftaráðunauturinn hafi á hendi.

Hvað viðvíkur 3. lið fyrirspurnarinnar um ferðakostnaðarreikninga viðskiftaráðunautsins, þá skal eg fyrst og fremst taka fram gagnvart háttvirtum fyrirspyrjanda, að eg álít alls ekki að nein almenn regla felist í stjórnarráðsbréfinu frá 9. marz 1910, það bréf átti að eins við eitt einstakt tilfelli, og þó svo hefði verið, þá væri sú regla fallin burtu nú eftir því sem fjárveitingin til viðskiftaráðunautsins er orðuð í gildandi fjárlögum. Eftir þeim á viðskiftaráðunauturinn heimtingu á ferðakostnaði eftir reikningi, sem að sjálfsögðu liggur undir úrskurði stjórnarráðsins. Eg minnist þess að í febrúarmánuði er fyrsti reikningurinn barst stjórninni, ákvað hún að ferðakostnaðurinn á hverjum mánuði mætti ekki fara fram úr 1/12 af 4.000 kr. að viðskiftaráðunauturinn gæti sent reikningana til til íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn og ef ekkert findist sérstakt við það athuga, gæti hann fengið reikningana borgaða þar, en annars yrði að senda þá hingað heim til úrskurðar. Ennfremur var ákveðið, að Hamborg skyldi talin aðal aðsetursstaður hans, eins og áður hafði verið, og skyldi miða ferðakostnaðarreikningana við það.

Það hefir verið tekið fram að til ferðakostnaðar viðskiftaráðunautsins eigi ekki að telja dagpeninga; það hefir heldur ekki verið gert, en fæðiskostnaður hefir honum verið greiddur, og er það annað en dagpeningar.

Háttv. þingm. Sfjk. (V. G.) sagði, að ferðakostnaður viðskiftaráðunautsins hafi verið 1.500 kr. á hálfu ári, (þessu síðasta misseri). Þó ferðakostnaðurinn hafi orðið þetta, þá er það þó ekki nærri því helmingurinn af þeirri upphæð, sem ráðunautnum er heimiluð með fjárlögunum í ferðakostnaðarskyni. Eg veit ekki hvort þessi upphæð hefir verið greidd, en eg tel að til þess hafi verið full heimild.

Fyrirspurninni, sem fram hefir komið í dag, þykist eg nú hafa svarað, lið fyrir lið, að svo miklu leyti sem eg get, sem fráfarinn ráðherra. Mörg atriði eru í ræðu háttv. þm. Sfjk. (V. G.) sem eg ekki tel mér skylt að svara, en sem eg hygg, að viðskiftaráðunauturinn muni svara sjálfur.