21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að eins að segja örfá orð til þess að gera eitthvað í vil háttv. sessunaut mínum (J. Ó.), sem hefir nú skemt mönnum með sögusögnum um ýmsa hluti. Eg hefi aldrei getið um það, að eg ætti að eiga heima í Hamborg og aldrei fengið neina skipun um það. (Jón Ólafsson: Jú stjórnarbréf) Hafi eitthvað verið ákveðið um það, þá hefir því verið beint til annars manns. Eg man eftir því að Jón Krabbe gat um það við mig í vetur, að Hamborg ætti að telja sem útgöngustað fyrir ferðir mínar. Sá eini sem mintist á þetta nú var háttv. þm. Borgf. (Kr. J.). Veit eg að engan furðar þó að þingmanninn hafi dreymt þetta, þar sem hann talaði um dagskrá sem hér hefði verið lesin upp og sem engin hæfa er til.

Hvorttveggja er þetta jafnrétt og hvorttveggja þingmanninum jafn samboðið.

Það sem hann hafði eftir Ólafi Eyjólfssyni hlýtur að vera sprottið af því, að einhver hafi veðjað við Ólaf að hann gæti tekið þingmanninum fram. Það er heldur ekki líklegt að hann hafi hitt mig í Hamborg á þeim tíma sem eg var þar alls ekki, því að það er að minsta kosti ekki venjulegt að menn séu á tveimur stöðum í einu.

Það er undarleg hugmynd sem þing maðurinn gerir sér um auglýsingar. Hann heldur að hver sú auglýsing sem einhver ferðalangur girnist að sjá, blasi við á hverju götuhorni. Ef maðurinn vildi spyrja mig uppi, varð hann auðvitað að leita sér upplýsinga eða þá að taka gamla blaðið þar sem auglýsing mín var. Auk þess hefir íslenzka skrifstofan í Kaupmannahöfn ávalt vitað hvar eg hefi verið (Jón Ólafsson: Nei! Það er ósatt!) og þar getur hver fengið að vita það sem vill. Þetta er því að eins venjulegur stóri sannleikur hjá þingmanninum. Hann hefir tekið á honum stóra sínum í dag. Það er óþarfi að þræta meira um ferðakostnaðinn, því að það sjá allir, að það hefir ekki verið tilætlun þingsins að eg fengi fargjöldin ein endurgreidd. Það er öllum kunnugt að minstur ferðakostnaðurinn er fólginn í þeim. Eða hugsar þingmaðurinn, að ráðherrann gefi ekki reikning fyrir meiru en fargjaldinu þegar hann fer til Kaupmannahafnar ? Þetta er svo vitlaust, að það er ekki svara vert. Það er einungis til þess að brigzla öðrum mönnum um fégirni, sem hann og allir vita að aldrei hafa fégjarnir verið. Eg veit ekki, hvort þetta er gert í von um að afl atkvæða setji á það sannleikans stimpil. En eg vona að eg lifi svo lengi að eg geti einhverntíma laumað orðum að þeim góðu mönnum þó að eg ekki í þessum sal svari þeirn sem vert er.