24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

94. mál, notkun lánsheimildar

Kristján Jónsson:

Eg vil leyfa mér að segja nokkur orð út af fyrirspurn þessari. Það er rétt, að bankastjórnin hefir bæði munnlega og skriflega leitað fyrir sér hjá mér um að fá lánsheimildinni fullnægt alveg, þannig, að einnig væru teknar að láni þær 500 þús. kr. sem brestur á að heimildin sé notuð til fulls. En um það leyti hvíldi á mér skylda til að útvega annað stórt lán, sem sé hafnarlán Reykjavíkur, og það tókst með sæmilegum kjörum, þótt örðugt væri. Þar á móti þegar eg leitaði fyrir mér um fé til bankans, þá fékk eg ýmist þvert nei eða mér voru settir svo harðir kostir, að eg vildi ekki ganga að þeim. Enda hefir nú um langt skeið verið mjög erfitt að fá fé að láni erlendis.

Viðvíkjandi því sem hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) gat um, að eftir stæðu 70—75 þús. kr. ógreiddar af lánsfénu, skal eg geta þess, að þetta er rétt, en upphæðin mun vera 98 þús. kr., eða sem næst 100 þús. kr., en ekki 70 eða 75 þús. kr. Þetta mun hafa verið greitt upp í skuld til ríkisféhirzlunnar af ráðherra Birni Jónssyni, án þess mér sé frekar kunnugt um, hvernig á því hafi staðið.

En síðan hefir peningaforði landssjóðs eigi verið svo mikill, að unt hafi verið að greiða þessa upphæð, og mér þótti eigi rétt að taka nýtt lán til þess.