16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

7. mál, yfirsetukvennalög

Bjarni Jónsson:

Mig undrar að nefndin skuli ekki hafa getað fallist á br.till. mínar. Eg hélt að þær væru svo augljósar og réttmætar að allir hlytu að fallast á þær. Br.till. við 1. gr. er að eins orðabreyting en ekki nein efnisbreyting. Við síðari liðinn er samskonar breytingartill., hún er einungis skýringarauki. Það er tekið fram, að yfirsetukonurnar í Reykjavík eigi að hafa gengið á erlenda fæðingarstofnun og kenna yfirsetufræði, annars væri ekki ástæða til að yfirsetukonur í Reykjavík væru betur mentaðar en yfirsetukonur annarsstaðar á landinu, það væri jafn vel síður ástæða til þess, þar sem læknarnir ávalt geta verið við hendina. Þessi br.till er svo einföld og sjálfsögð að það væri engin meining að greiða atkvæði móti henni. Eg hefi komið með þá brt. að í stað 60 kr. komi 80 kr. Þar sagði háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) að nefndin hefði mætt mér á miðri leið, með því að leggja til að lágmarkið væri 70, þetta er að vísu ofur lítil tilslökun og er eg hv. nefnd þakklátur fyrir hana.

Þá á eg br.till. við 5. gr. og legg eg þar til að fyrri málsgrein falli burt, vegna þess að eg vil ekki vera að bæta við eftirlaunum, síðari málsgrein 5. gr. vil eg orða svona: „Ef yfirsetukona slasast, þegar hún er að gegna lögmæltu starfi sínu, svo að hún verður að fá lausn, og er ekki fær um að vinna fyrir sér á annan hátt, þá skal hún eiga kröfu til eftirlauna, en bæjarstjórn eða sýslunefnd ákveður upphæð þeirra“. Þykir mér þetta betur orðað en er í frv.

Svo hér br.till. við síðari málsgrein 7. gr., mér finst hún illa orðuð í frv., en eg vildi bæta úr því með þessari brt., sem eg veit að vel er orðuð, því að landlæknirinn hefir samið hana og er hann manna færastur til þeirra hluta.

Eg vona að br.till. mínar verði samþyktar, þær eru bara lagfæring á orðalaginu í frv. og því ekkert á móti að greiða þeim atkvæði. Ein tillagan er að vísu efnisbreyting, um að hækka lágmark launanna til yfirsetukvenna.