16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

7. mál, yfirsetukvennalög

Bjarni Jónsson:

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) lagði alveg rétta áheyrslu á það, hvað mér hafi gengið til með breytingartill. minni um að fella burt orðin: fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn. Eg vil ekki láta það skýna gegn um íslenzk lög, að við séum í nánu sambandi við Dani, og ekki að við lítum upp til þeirra eins og einhverra æðri vera. Þó að æskilegt kunni að vera, að láta yfirsetukonur sækja þessa dönsku fæðingarstofnun, þá er óþarft að tiltaka eða ákveða það í lögum vorum. Það ætti að duga yfirsetukonum er vilja fara utan og læra á erlendri fæðingarstofnun, að fá bendingu frá landlækni um það hvaða slíka stofnun hann áliti heppilegasta. Annars mun atkvæðagreiðslan um þessa brtill. mína sýna það, hverjir vilja að alóþörfu elta skottið á Dönum og „dependera“ af þeim, gaman verður að sjá það við nafnakall. Mér stendur hérumbil á sama hvort lágmark launanna er 70 eða 80 kr., en ekki vex mér það í augum þó útgjöld sýslu- og bæjasjóða hækki um 2.000 kr.

7. brtill. mín bendir til þess að mér þykir illa til fundið og leiðinlegt að vera að brenna krakkagreyin sveitarlimsmarkinu við fæðinguna.