27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

4. mál, breyting á alþingistíma

Sigurður Eggerz:

Þótt háttv. þm. Ísaf. talaði af miklum móði, fæ jeg ekki sjeð, að honum hafi tekizt að færa rök að því, að sá tími, sem þing nú er háð á lögum samkvæmt, sje hentugri en sumartíminn.

Á sumarþingum geta flestar stjettir landsins sjer að bagalausu haft fulltrúa. Frá vetrarþingum má segja að kennarastétt landsins, sem nú er orðin allfjölmenn, sje með öllu útilokuð. Sama er að segja um sjómannastjettina. Þetta eitt væri ærið næg ástæða til að breyta um þingtímann, svo framarlega sem fulltrúar annara stjetta væru ekki útilokaðir á sumartímanum frá þingsetu. Að svo er ekki um bændastjettina, það hefur reynslan kent oss, sem ólýgnust er allra hluta, því vitanlega hafa margir bændur setið á flestum þingum vorum, sem nálega öll hafa verið háð á sumrum.

En auk þess mun það láta fjarri, að bændur sjeu allir sammála um, að vetrarþingin sjeu þeim þægilegri en sumarþingin. Reynsla mín er hið mótsetta, því jeg hef átt tal um þetta mál við mjög marga góða og greinda bændur í mínu kjördæmi, og held jeg þeim hafi öllum komið saman um, að þeir kysu fremur sumarið en veturinn til þinghalds. Ástæður að þessu eru mjög einfaldar. Veturinn er sá tími, sem mest þarf að halda á ráðum og forsjá bændanna. Eftirlitið með sauðfjenaðinum og heyjunum er vandamál, sem örðugt er að trúa öðrum fyrir. Og ef í harðbakkana slœr, tíð er vond og hey knöpp, sem getur komið fyrir hjá fleirum en heyleysingjum og horkóngum, þá er von, að bóndinn treysti sjer bezt. Ekki er með þessu sagt, að sumartíminn sje ekki bændunum afarnauðsynlegur, sá tími, sem vetrarforðanum er safnað á, en verk þau, sem þá eru unnin, eru óbrotnari, og geta því aðrir fremur veitt heimilunum forstöðu í bóndans stað. Yfir höfuð held jeg, að allar stjettir landsins eigi hægast með að sitja á sumarþingum. Einstöku menn, eins og ráðunautar, eiga auðvitað erfitt með það, en þeir eru fáir og ekki verður á alt kosið.

Hvernig háttv. þingmanni dettur í hug, að öreigalýðurinn eigi greiðari aðgang að sumarþingum en vetrarþingum, er mjer með öllu óskiljanlegt.

Háttv. þm. tók fram, að hann vissi ekki til, að neinn ákveðinn þjóðarvilji væri fram kominn í þá átt, að breyta um þingtímann. Þetta mun rjett vera, en í aðra átt liggur fyrir ákveðinn þjóðarvilji og það er að spara landsfje sem mest má. En um það mun enginn efast, að fleiri þúsundir sparast við að flytja þingtímann frá vetri til sumars.

Að því er dvöl þingmanna snertir hjer í Reykjavík, er hún vitanlega dýrari á vetrum en sumrum, og því sízt meðmæli með vetrarþingum. Eins og hitt nær heldur ekki neinni átt, að bændur þurfi að setja menn fyrir sig á sumrin, en þurfi þess ekki á vetrum. Flestum mun þó af tvennu illu vera ver við að yfirgefa heimili sitt illa mannað í vetrarhörkunum, en í sumarblíðunni.

Kostnaður í þessu sambandi er því ekki annað en grýla. En á annan kostnað má minnast. Ef þing yrði háð framvegis á vetrum, er sýnilegt að byggja þyrfti háskólanum hús. Og mjer er sem jeg sæi framan í þjóðina, ef að ástæðulausu ætti að fleygja fje í dýra háskólabyggingu. Og í þessu sambandi er ekki nóg að segja, að háskólinn og þingið gæti komizt fyrir í sama húsi, sem jeg nú reyndar efast mikið um; á hitt yrði líka að líta, að kenslan mundi vegna pólitíkurinnar hjer á efri bygðunum truflast svo, að ekki yrði hálft gagn af, því bæði prófessorar og stúdentar mundu hafa mikla tilhneigingu til að reka höfuðið hjer upp í pólitíkina. Þarna er þá ein ástæða enn, mjög öflug fyrir flutningi þingtímans.

Þá má ekki gleyma því, að ferðirnar á vetrum eru miklu erfiðari en á sumrum, og auk þess landinu mikið dýrari.

Að þessu öllu samanlögðu virðist mjer auðsætt, að sumarið sje mikið hentugra til þinghalds en veturinn.

Að skipa nefnd í þetta mál, virðist mjer hjegómi. Hvað ætti hún að upplýsa og hvaða verkefni hefur hún? Jeg sje það ekki.