15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

8. mál, bólusetningar

Framsögum. minni hlutans (Ólafur Briem):

Það var ekki margt, sem háttv. meiri hluta nefndarinnar greindi á við mig. Eg hefi ekkert við það að athuga að borgun fyrir bólusetningu verði sett upp, en aftur á móti er eg nefndinni ósamþykkur í því að breyta lögunum um það að borgunin fyrir bólusetninguna sé minni þegar bólan kemur ekki út. Tillaga hinnar háttv. nefndar vill hækka borgunina, hvort sem bólan kemur út eða ekki. Í undirbúningi málsins tók landlæknir þetta til íhugunar, vil eg nú leyfa mér að lesa upp, hvað landlæknirinn segir um þetta mál:

„Læknar hafa oft fundið að því, að borgunin er minni ef bólan kemur ekki út, en eg tel óráðlegt að breyta þessu. Þetta ákvæði er hvöt til héraðslækna um það eð útvega bóluefnið á réttum tíma, rétt áður en bólusett er. Bólusetningar hafa oft mistekist, en það er þá af því, að bóluefnið hefir verið of gamalt, eða illa geymt, svo að það hefir skemst“.

Háttv. framsm. meiri hl. (H. S.) finst mér hafa farið helzt til hörðum orðum um þetta og alveg er það fjarri öllum sanni að segja að þessi tillaga landlæknis sé samkvæm núgildandi lögum og áliti nefndarinnar. Gagnvart bólusetjurunum finst mér það líka sanngjarnt, að mismunur sé á borguninni, eftir því að hve miklu gagni bólusetningin er, og ómótmælanlegt er það, að það mundi styðja að því að bólusetjararnir myndu verða vandvirkari, og einkanlega fara betur með geymsluna á bóluefninu; það er á valdi þeirra, sem með efnið fara, bólusetjara og héraðslækna.

Af því málinu er þannig varið, að óvíst er hvort efri deild vilji samþykkja breytingartillögur meiri hlutans, þá vil eg samþykkja frumvarpið í heild sinni óbreytt.