15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

8. mál, bólusetningar

Frams.m. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Mig undrar mjög á orðum háttv. frams.m. minni hl. (Ó. Br.), því honum má vera kunnugt um, að landlæknir var viðstaddur á einum fundi nefndarinnar og einmitt hann lagði það til, að þessi breyting yrði sett inn í nefndarálítið og breytingartillagan því sett inn eftir ráði hans.

Engin hvöt getur það verið fyrir héraðslækna að hafa bóluefnið gott, því þeir hafa ekkert með það að gera, annað en panta það handa yfirsetukonum og bólusetjurum og svo gefa skýrslu um bólusetningar og það fá þeir enga borgun fyrir. Því getur það ekki verið nein hvöt fyrir héraðslækna að hafa þetta ákvæði, sem háttv. framsögum. minni hlutans vill hafa og yfirleitt er sú hvöt óheppileg, sem aðeins er sprottin af umhugsun um nokkra aura. Eg skil ekki í því, hvernig háttv. framsögum. minni hlutans getur haft svo mikinn áhuga á því, að þetta ákvæði sé óbreytt og hvergi held eg slíkt ákvæði eigi sér stað nema í Kína, því þar fá læknar enga borgun fyrir verk sín, nema sjúklingarnir verði heilbrigðir, en ekki sýnist mér það, að Íslendingar eigi að taka Kínverja sér til fyrirmyndar í þessu og þvílíkum málum.