01.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Þetta frv. eins og það liggur fyrir, er talsvert athugavert og finst mér, að gera þyrfti á því æði miklar breytingar, ef deildin ætti að geta samþykt það. Það ákvæði finst mér óheppilegt, að rígbinda með lögum, að landlæknir skuli vera kennari við þennan skóla. Væri skynsamlegra, að læknadeild háskólans hefði umsjón með kenslunni, og skipaði þann mann kennara, er kennir sömu námsgrein læknaefnum landsins. Býst eg við, að það yrði ódýrara, en þetta fyrir- komulag. Það reyndar ekki stór upphæð þessar 1.000 kr. sem ætlast er til að landlæknir hafi fyrir kensluna, en hingað til hefir verið komist af með 50 krónur fyrir hverja námskonu og hygg eg að kennarinn við háskólann, er tæki þetta að sér, mundi sætta sig við sömu kjör. Þó að nú standi svo á, að landlæknirinn sé vel fallinn til að gegna þessu starfi, þá eru það svo ólík störf að vera landlæknir og kennari í yfirsetufræði, að vel gæti komið fyrir, að í landlæknisstöðu veldist sá maður, sem sem væri alls óhæfur til að annast þessa kenslu.

Eg sé annars, að höfuðástæðan sem færð er fyrir því, að landlækni sé fenginn þessi starfi er sú, að hann hefir kvartað undan, að kjör sín sem landlæknis séu, erfiðari en þau hafi verið og að hann þurfi að fá hærri laun. Hér er því í raun og veru verið að fara fram á að bæta laun landlæknis, af því að þau séu nú of lág. Eg sé ekki betur en að það sé óþarfleg umkvörtun, að kjör landlæknis séu verri en þau hafa verið. Launin eru þau sömu, og nú hefir nýlega verið létt af honum því starfi að vera forstöðumaður læknaskólans og kennari þar, án þess, að hann hafi nokkurs í mist af launum fyrir það. Eg fæ ekki séð, að störf landlæknis séu svo umfangsmikil, að 4.000 kr. sé ekki sæmileg laun, einkum síðan hann var leystur undan því starfi sem eg gat um áðan, og honum með því gefið svigrúm til að stunda lækningar hér í bænum. Hvað þennan mann snertir, sem nú er landlæknir, þá var hann hér héraðslæknir áður og vel kyntur. Hefir hann því mikið að starfa, fjölda fastra sjúklinga og er hann eini læknirinn hér í bænum sem hefir viðtalstíma bæði fyrri og síðari hluta dags. Sér maður á því að það er ekki geysimikil kvöð sem hvílir á honum sem landlækni. Eftir því sem aðrir læknar hafa hér í bænum fyrir störf sín, má ætla að landlæknir hafi fyrir lækningar sínar um 4.000—5.000 kr. auk fastra launa sinna. Og þegar þau bætast þar við eru laun hans svo mikil, að óþarfi virðist fyrir þingið að tryggja honum meira. Það eru ekki margir embættismenn sem betur eru launaðir, nema þá helzt bankagjaldkeri og landritari. „Hann hefir 6.000 kr.“, heyri eg að sagt er í kringum mig, en það hefi hann einungis fyrir landritarastöðuna. Hann mun nú hafa ýmislegt fleira á hendi, sem gefur honum drjúgar aukatekjur.

Hvað viðvíkur skrifstofustarfi landlæknis, sem svo mikið er gert úr, þá segir það sig sjálft, að það getur ekki verið umfangsmikið. Það er þetta eftirlit með 40 læknum landsins, og skil eg ekki að þeim sé svo vandstýrt, að 4.000 kr. sé ekki fullnæg borgun fyrir það. Það er því blátt áfram hlægilegt, ef farið verður að stofna þetta embætti til þess að bæta launakjör þessa manns, sem svo há laun hefir, einkum þegar miðað er við, hvað margir starfsmenn landsins, t. d. póstafgreiðslumenn, eru illa launaðir. Þá eru kjör almenninga ekki glæsileg. Fátækrastyrkurinn hér í Reykjavík er 30.000 kr. og svo bágt eiga menn með að greiða útsvörin, að 10.000 kr. af þeim hefir bæjarstjórnin orðið að gefa upp, þær hafa ekki náðst. Þegar því kjör alls almennings eru svo rýr, er það algerlega röng stefna af þinginu að bæta við laun þeirra manna sem áður hafa hæst laun.

Hins vegar skal eg viðurkenna, að sum ákvæði í frumvarpinu eru til bóta, og tel eg því rétt að málinu verði vísað til nefndar.