20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Eg ætla að segja fáein orð út af brtill. þgskj. 318, sem eg hefi borið fram ásamt 1. þm. Rang. (E. J.).

Eg tók það fram, þegar við 1. umr. þessa máls, að ekki væri heppilegt að binda þetta kenslustarf við landlæknisembættið, og færði eg rök að því. Hv. nefnd tók þau orð mín til greina að því leyti, að hún spurðist fyrir um það hjá forstöðumanni læknadeildar háskólans, hvort hann sæi læknadeildinni fært að hafa þessa kenslu á hendi. í nefndarálitinu á þskj. 219 er svo birt frá honum bréf, þar sem hann lætur uppi álit sitt um þetta. Hann felst þar á þá skoðun okkar, að eðlilegast sé að þessi kensla sé bundin við læknadeild háskólans, en ekki við landlæknisembættið, skírskotar hann til þess, að svo sé þessu fyrirkomið í Danmörku, og segir að sennilega verði einnig gert svo hér síðar meir. Eina ástæðan, sem han færir til á móti því, að háskólinn geti tekið þessa kenslu að sér nú þegar, er sú, að eins og nú er, sé störfum svo freklega hlaðið á þá kenslukrafta, sem deildin hefir á að skipa, að enginn vegur sé til þess, að bæta þessari kenslu á þá. Hann bendir á það, að nú sé þegar orðin full þörf á því að auka þá, og muni ekki líða á löngu áður ekki verði hjá því komist, að bæta þar við einum manni, hvernig sem fari um þetta frv. Og þegar það sé gert, þá sé vel fært að sami maðurinn, sem nú kennir yfirsetufræði við háskólann, taki líka að sér þessa kenslu, sem hér er um að ræða.

Í samræmi við þetta höfum við nú komið fram með þessa brtill, að skotið sé inn í 3. gr. ákvæði um það, að landlæknir skuli ekki hafa þessa kenslu á hendi lengur en þangað til auknir verða kenslukraftar við læknadeild háskólans. Þetta er í fullu samræmi við álit formanns deildarinnar og sjálfsagt bæði vegna þess, að þessi kensla er alveg óskyld landlæknisembættinu, svo að þótt svo vel kunni til að vilja, að núverandi landlæknir sé vel hæfur til hennar, þá þarf eigi ætíð svo að vera, og svo vegna hins, að þegar bætt verður kennara við læknadeildina, og það verður að gera áður en langt um liður hvort sem er, og þessari kenslu að sjálfsögðu vikið þangað, þá sparast kaup það, sem landlækni er ætlað fyrir hana samkv. þessu frv. Gera má ráð fyrir að hinn nýi dósent fái 3.000 kr. í laun, hvort sem hann kennir þetta eða ekki, og þá sparast þessar 1.000 kr. ef kensla þessi er falin háskólanum.

Eg vona því að deildin sjái, að ekkert vit er í að binda þessa kenslu við landl.embættið til frambúðar, og samþ. því þessa brtill.

Hin breytingin, að landl. skuli ekki hafa þúsund kr. á ári, heldur 50 kr. fyrir hverja námskonu, er í samræmi við það sem nú er, og sjáum við ekki annað, en hann megi vel við það hlíta þótt við leggjum minni áherzlu á þá brtill. en hinar.