20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Hv. frsm. sagði að nú væri orðin sú breyting á kenslunni í Danmörku, að hún væri ekki í höndum prófessora við háskólann En síðan er upplýst að þetta er rangt hjá honum, því að kennarinn í þessari fræðigrein er einmitt prófessor við háskólann. En annars skiftir það minstu máli kvernig þessari kenslu er hagað í Danmörku, við þurfum ekki að „dependera svo af þeim dönsku“, að við getum ekki hagað kenslunni hérna eins og hentugast er, hversu sem þeir fara að, enda er það varla landlæknir eða samsvarandi embættismaður er hefir hana á hendi í Danmörku. Hv. framsögum. sagði, að breyta mætti þessum lögum þegar til þess kæmi að bæta kennara við í læknadeildina, en þá gæti landlæknir sagt, að þingið hefði ekki rétt til að svifta sig kenslunni og gæti heimtað að halda laununum. Og hvað er annars mætara að breyta lögunum þá, en að samþykkja þessa breytingartillögu nú. Við tillögumenn förum ekki fram á að stofnað sé neitt nýtt embætti, heldur að þegar það verði stofnað, þá verði kenslan lögð til háskólans, svo að við förum fram á það sama sem framsögum. vill gera síðar með lagabreytingu. Eg sé ekki betur er hér sé verið að stofna bitling handa landlækni og sú hefir verið tilætlunin. Hann kemst sjálfur í hita í bréfi sínu til stjórnarráðsins, þar sem hann minnist á sín bágbornu kjör, og segist verða að heimta skrifstofulaun, ef hann fái ekki fast 1.000 króna embætti við þennan kvenna skóla! Það er alveg eins og honum sparist vinna á skrifstofunni, ef hann fær að kenna þessum námskonum, eða ef til vill ætlar hann að láta yfirsetukonurnar aðstoða sig á skrifstofunni! (Hlátur). Eg tek það fram aftur, að hér er ekki farið fram á að stofna neitt nýtt embætti við háskólann, en það verður sennilega gert innan skamms, og þá er ekki neitt á móti því, að það sé í lögum að kenslan leggist þá til háskólans. Eg sé ekki að landlæknisstarfið og þetta kenslustarf sé svo samræmilegt, að kenslan í yfirsetukvennafræði þurfi endilega að vera bundin við landlæknisembættið.

Verði brtill. ekki samþyktar, þá mun eg greiða atkvæði á móti frv.