24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Frams.m. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og sjá má á framhaldsnefndarálitinu á þgskj. 391 hefir nefndin eða meirihluti hennar lagt til að kippa burtu ákvæði því, sem háttv. Ed. setti inn í 3. gr. frv. Meiri hluti nefndarinnar vill hvorki rétta hönd til að stofna nýtt embætti hér né heldur álítur meiri hlutinn, að nokkur lagaskylda hvíli lengur á landlækni til þess að kenna yfirsetukonum. Með lögum 13. Apríl 1894 var ákveðið, að yfirsetukonur skyldu taka próf annaðhvort við fæðingarstofnuna í Kaupmannahöfn eða hjá þeim kennara er kendi ljósmæðrafræði við læknaskólann. Þessi skylda hvíldi á landlækni sem forstöðumanni læknaskólans, af því að hann kendi ljósmæðrafræði. En með háskólalögunum er landlæknir ekki lengur forstöðumaður læknaskólans, og getur því engin skylda lengur hvílt á honum til að kenna yfirsetukonum.

Eg vil skjóta því til andstæðinga frv. að finna eitthvert fyrirmæli í gildandi lögum. Ella hirði eg ekki að svara upptuggum þeirra frá fyrri umræðum, sem þegar eru hraktar. En benda vil eg þeim á, að ef frv. verður samþykt í öðru formi eða fellur, þá er við búið, að engi kensla geti farið fram fyrir yfirsetukonur, og getur það valdið óþægindum, þar sem lögskipað er, að yfirsetukonur skuli vera prófaðar.