24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Ráðherrann (H. H.):

Út af framkomnum skírskotunum til fyrirkomulags á yfirsetukvennakenslu í Danmörku, sem menn hafa talað að falin væri læknadeild háskólans í Kaupmannahöfn, vil eg að eins upplýsa, að þetta er ekki svo nú, heldur fer kenslan fram á sérstökum skóla.

Eg verð að mótmæla að sæmilegt sé að laun landlæknis fyrir starfann séu kölluð bitlingur. Kaupið er einmitt mjög lítið, og í frv. ákveðið lægra, en landlæknir til þessa stundum hefir fengið fyrir kensluna. Þannig var kenslukaupið 1910 1.100 kr. með 50 kr. þóknun fyrir hverja.

Starfið mikið og mikilsvert og þarf valinn mann til að gegna því.

Hygg eg engum blandist hugur um, að núverandi landlæknir er manna bezt til þess starfs fallinn, og ekki völ á öðrum færari, meðan hans nýtur við, sem óskandi er að verði sem lengst. Það er yfirleitt æskilegt, að æfður læknir sem hefir mikla praxis í þessum efnum, hafi kensluna á hendi, og það er meiri trygging fyrir því, að landlæknir inn sé valinn meðal slíkra manna, heldur en þeir sem kennaraembætti fá við háskólann, ef til vill beint frá examents borði eða svo til. Með því að eg er yfirleitt samdóma því, sem háttv þm. Húnv. (Ó. Br.) hefir sagt, get eg að öðru leyti látið mér nægja að skírskota til þess.