07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

20. mál, vatnsveita á Sauðárkróki

Flutningsm. (Ólafur Briem):

Þetta frumv. er borið fram hér á þingi fyrir tilstilli hreppsnefndarinnar á Sauðárkróki. Ástæðurnar fyrir því eru aðallega tvær:

Í fyrsta lagi sú, að skortur getur orðið á vatni á þessum stöðvum, og auk þess hefir það komið fram, að það vatn, sem fengist hefir, hefir ekki ávalt reynst eins heilnæmt og skyldi. Það hafa orðið talsverð brögð að taugaveiki þar á staðnum, sem stundum hefir breiðst út um héraðið og hefir læknirinn mest kent það vondu og óheilnæmu vatni. Hann hefir því beitt sér mikið fyrir því, að bæjarbúar kæmu á hjá sér vatnsveitu og er verkið þegar langt komið. Það var byrjað á því í vor og nú þegar er búið að veita vatninu í öll aðalhúsin. Kostnaðurinn til vatnsveitunnar hefir verið áætlaður 14 þús. kr. og var tekið lán, sem svaraði þeirri upphæð í veðdeildinni, þó það, vegna affalla á bankavaxtabréfum, yrði ekki meir en rúml. 13 þús. kr. Sennilegt er, að vextir og afborganir geti orðið greiddir, sem sé 5 af þúsundi af virðingarverði allra húseigna í kauptúninu, sem alls nemur nálægt 200 þús. kr. með því gjaldi, sem hæst er ákveðið í 3. gr. frv.

Frumvarpið er sniðið eftir frv. sem var borið fram á þinginu 1907 um vatnsveitu í Rvík.

Annars hefir málið fengið svo rækilega meðferð í Ed., að eg býst við að það fái greiðan framgang hér og verði vísað til 2. umr.