09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

20. mál, vatnsveita á Sauðárkróki

Flutningsm. (Ólafur Briem):

Eg get ekki neitað því, að þetta frv. um vatnsveitu á Sauðárkróki hefir mörg sömu ákvæðin að geyma sem það, er nú er nr. 4 á dagskránni. En þó er hér nokkru öðru máli að gegna. Hið almenna frv. um vatnsveitu í löggiltum verzlunarstöðum miðar að því að setja ákvæði um vatnsveitu á þeim stöðum þar sem það er ekki enn gert, setur ákvæði um undirbúning og rannsóknir snertandi slík fyrirtæki. Öllu þessu er lokið á Sauðárkróki. Enn fremur er þess að gæta, að í hinu almenna frumv. er svo ætlast til, að sérákvæði viðvíkjandj upphæðum vatnsskatts séu tekin upp í sérstaka reglugerð er sett verði fyrir hvert kauptún. Mál þetta hefir verið til meðferðar í Ed. og var athugað þar í nefnd og þar sett inn í frumv. það ákvæði, að upphæð vatnsskatts mætti ekki yfirstíga 5 af þúsundi af virðingarverði allra húseigna í heild sinni og ekki fara fram úr 6 af þúsundi virðingarverðs af hverri einstakri húseign. Þess vegna er það, að þótt þetta frv. sé ekki beint nauðsynlegt ef almenna frumv. gengur fram, þá sýnist samt ekkert á móti því að afgreiða frv. sérstaklega, úr því að vatnsveitan er komin á, líkt og hér í Reykjavík voru sett sérstök lög um sama efni.