16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg skal ekki fara mikið út í stjórnarskrárfyrirlestur háttv. þm. Sfjk. (V. G.), en ég vil benda honum á að nú á þessu þingi hefir verið borið upp í efri deild frv. til laga um verðtoll, og þar hefir verið borið upp frv. til laga um kolatoll, og það hefir hingað til ekki verið álitið neitt athugavert, þó borin hafi verið upp í Ed. frv. í skattamálum. Stjórnarskrárákvæðið nær ekki nema til fjárlaganna.

Eg býst við að til grundvallar fyrir atkvæðagreiðslu neðri deildar nú hafi legið þau atvik, að um svo einfalt mál hefir 7 manna nefnd ekki komið fram með neitt álit eftir 5 vikna starf. Þó að nefndin hafi haft mörg frv. til meðferðar hefði hún þó átt að geta gert betri skil.

Viðvíkjandi frv. skal eg taka það fram, að vitaskuld hefir þessi dráttur, sem á því er orðinn, bakað landssjóði ekki svo lítið tekjutap, því að nú þegar búið er að flytja út mikið af fóðurmjöli og áburðarefni. Eg hefi fengið upplýsingar um þetta frá umboðsmanni mínum á Siglufirði og mun eg gera nánari grein fyrir þeim við 2. umr.

En eg skal nú taka fram eitt atriði, sem gerir nauðsynlegt að hraða afgreiðslu þessa máls. Það atriði snertir ekki neitt af því, sem í frv. stendur, heldur snertir það nýja aðferð á útflutningi á síld, sem Norðmennn hafa fundið upp nýlega. Þeir flytja síldina út lausa í skipinu, lítið saltaða, án umbúða, bræða hana erlendis og búa þar til úr henni fóðurmjöl. Nú liggur á Siglufirði stórt flutningaskip, sem á að flytja út 8.000 máltunnur af síld á þennan hátt. Það væri óeðlilegt og ranglátt að leggja fullkominn toll 50 aura á hverja 120 potta, á síld, sem er flutt út á þennan hátt. Það væri tollur, sem nærri því svaraði til helmings af kjöttollinum norska, nefnilega 50 aura á 4 kr. virði. En það er ekki heimilt eftir núgildandi lögum að heimta þennan toll. Lögin frá 1907 gera ráð fyrir að síldin sé flutt út í umbúðum, en þegar hún er flutt út án umbúða og laus í skipinu, er ekki hægt að heimta tollinn.

En það er ekki rétt heldur, að þessi síld sleppi álögulaust Það mætti leggja eitthvert lægra gjald á hana þegar hún er þannig útflutt, og þótt tollurinn væri ekki hafður nema hálfur, þá er hann þó af 8 þús. máltunnum, sem jafngilda 10.000 tn á 120 Ltr. Eg vona því að háttv. deild sjái það, að hér getur verið um allstórar upphæðir að tefla daglega og eftir því sem mér hefir heyrst, höfum við ekki ráð á því að tapa miklu fé, og er það sagt til athugana fyrir þær nefndir sem kunna að hafa gaman af því, að súrsa svona mál von úr viti. Eg hefi fengið upplýsingar um það hvað ein síldarverksmiðja, sú sem er í Krossanesi, framleiðir á dag, og eftir því sem mér er frá skýrt, er þar brætt lýsi úr 1.500 máltunnum, og fæst ein tunna lýsis hér um bil úr hverjum 8 máltunnum. Það verða um 185 tunnur af' lýsi á dag. Svo fæst 1 sekkur, eða 100 kílogr. af fóðurmjöli og áburðarefnum úr hverjum 4 máltunnum, og verða það 300 sekkir eða 3.000 kílogr. á dag. Aðrar verksmiðjur eru minni, en eg vona þó að hv. deild sjái að hér er um töluvert að gera. Mér þætti því mjög óheppilegt ef frv. félli nú, og það enda þótt eg sé ekki svo mjög áfram um það í sjálfu sér að hækka lýsistollinn og ekki kappsmál með tollinn á fóðurmjöli og „guano“ á þessu ári af því að nú er verðið lágt í útlöndum, vegna þess hve mikið hefir veiðst af fiski í ár í Noregi og því ekki víst að þeir, sem töpuðu á þessum afurðum í fyrra — ef til vill nokkuð fyr — fyrir klaufaskap sinn, vinni það meira en svo upp nú í ár. En ef frv. félli nú, þá væri það að gefa þessum félögum undir fótinn um það, að þeir þyrftu ekki að búast við slíkum tolli framvegis, og það væri rangt. Og hvað sem því líður, er það nauðsynlegt, að gera eitthvað sem fyrst til þess að ná einhverjum tolli af síldinni, sem eg gat um áðan, og flutt er út umbúðalaus í skipunum.