16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Einn háttv. þm. hefir talað um að það sé brot á stj.skr., að frv. þetta er hér fram komið. Það er nú reyndar ekki brot á bókstaf stj.skr., en samdóma er eg honum um það að það sé brot á anda hennar. En svo er það, að þetta mál kemur hér fram, brot á öðru, sem meira er vert, en það er heilbrigð skynsemi. Það er brot á henni, að tvö alveg samskonar frv. skuli í einu liggja fyrir báðum deildum þingsins.

Hugsum okkur afleiðingarnar sem gætu orðið af þessu. Hugsum okkur sama frv. liggja fyrir báðum deildum í einu, Nd. breytir því og samþykkir það síðan með eins atkvæðis mun. í Ed. gengur frv. fram. óbreytt, sömuleiðis með eins atkv. mun, kemur til Nd. og er samþykt þar eins, af því að einn maður eða tveir eru veikir. Eins fer í Ed. með hitt frv. og hefir þá þingið samþ. tvent hvað ofan í annað. Þetta er mögulegt, og allir sjá að það stríðir á móti heilbrigðri skynsemi, og eg vil ekki eiga þátt í því að þannig sé farið að.

Háttv. sessunautur minn fáraðist um það tjón sem leiddi af að málinu hefir ekki verið flýtt svo sem skyldi. Eg er honum samdóma um það, en það er ekki mér að kenna, heldur því, hvernig háttv. deild hefir hrúgað mörgum málum á þessa einu nefnd.

Annars hefi eg heyrt sagt að hann hafi ekki viljað tolla síldarlýsi í fyrra. Hvers vegna var honum ekki jafn ant um það þá eins og nú? Mér þætti vænt um að fá skýringu á þessu.