16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Lárus H. Bjarnason:

Eg ætla að fá að segja nokkur orð út af ræðu hæstv. ráðh. (H. H.) í dag. Vona að nú sé runnið svo af okkur báðum, ekki sízt hæstv. ráðherra eftir hvíldina, að við getum talað sæmilega hitalítið. Eg ætla að rekja ræðu hæstv. ráðherra eftir því sem eg hefi skrifað orð hans niður hjá mér, enda þótt samhengið verði lítið, af því að ræða hans var allsendis sundurlaus.

Hann sagði, að ef frv. þetta yrði felt, þá færi til ónýtis mikil, geysimikil vinna efri deildar. Frv. gekk nefndarlaust og svo að segja umræðulaust gegnum þrjár umræður deildarinnar! En úr því að hæstv. ráðh. (H. H.) alt í einu er orðið svo ant um, að vinna þingsins fari ekki til ónýtis, hví fór hann þá ekki upp í efri deild í dag, til þess að gæta þess, að vinna háttv. neðri deildar við verðtollsfrv. væri ekki unnin fyrir gýg.

Hæstv. ráðh. (H. H.) hélt því fram hér í deildinni í dag, að Ed. hefði oft haft frumkvæði í fjármálastarfi þingsins, og þóttist hann hafa dæmi á takteinum því til styrktar, lántökuheimildarlögin frá 1903. En hæstv. ráðherra fór þar með skakt eins og honum hættir svo mjög við, sérstaklega þegar hann hitnar. Eg sýndi honum fram á það eftir fundinn, að hann hefði haft á röngu að standa, en hann laut ekki svo lágt að líta við því, fullyrti meira að segja að hv. þm. Borgf. (Kr. J.) heföi átt upptökin að lögunum, í stað þess að Nd. átti það og Kr. J. talaði móti þeim.

Hæstv. ráðh. (H. H.) kastaði til mín gælunafni fyrir leiðréttinguna, gælunafn sem eg kæri mig ekki um, að hafa upp hér í þingsalnum, sízt nú er hann hefir játað það opinberlega að hann hafi farið með staðlausa stafi og þakkað mér fyrir leiðréttinguna, enda fyrirgef eg honum gælunafnið og hitaorðin.

Hæstv. ráðh. (H. H.) vitnaði í 21. gr. stjórnarskrárinnar því til sönnunar að leggja mætti fyrir hvora deild sem væri öll frumvörp nema fjárlög og fjáraukalög, en sú lögskýring líkist fremur skýringu viðvanings en löglesins ráðherra. Viðvaningar þykjast góðir þegar þeir geta borið fyrir sig tiltekna grein og halda að þeir séu þar með leiddir í allan sannleika, en því fer mjög fjarri að svo sé. Það líkist því að sjá einstakt eða einstök tré, en sjá ekki skóginn. Eða heldur ráðherra að þingmaður, hvort heldur í Ed. eða Nd. geti borið upp frv. til samþyktar á landsreikningnum. Eða heldur hann að það verði borið upp í Ed. Nei, sannarlega ekki. Og þó er hvorugt bókstaflega bannað í stjórnarskrá eða þingsköpum.

Sama má segja um skýringuna á 28. gr. Hæstv. ráðh. (H. H.) vitnaði í hana og vildi með því sanna, að deild yrði að taka hvaða frumv. til umræðu sem frá hinni kæmi. Setjum svo, að efri deild hefði nú afgreitt frv. til stjórnarskrár, en kallað það einhverju öðru nafni. Eftir kokkabók ráðherra ætti hv. Nd. að taka slíkt frumv. til umræðu, en eg er handviss um að forseti tæki slíkt frumv. aldrei á dagskrá. Hann mætti það ekki, yrði að vísa því frá samkv. 26. gr. þingskapanna. Tökum enn annað dæmi. 2. gr. stjórnarskrárinnar mælir svo fyrir, að löggjafarvaldið sé hjá konungi og Alþingi í sameiningu. Eftir kenningu ráðherra ætti ekkert annað löggjafarvald að vera til. En líti hann í 11. gr. Þar sér hann að konungur einn hefir leyfi til að setja bráðabyrgðarlög. Annað eins og þetta ætti maður ekki að þurfa að hlusta á úr ráðherrastólnum.

Enn sagði hæstv. ráðherra (H. H.) að bera mætti fram tvö frumv. sama efnis, og sagði meira að segja að eg hefði borið fram frv. sama efnis og stjórnarfrv. um öryggi skipa og báta, en þetta nær ekki nokkurri átt. Muninn á frumv. mínu og frumv. hæstv. stjórnar getur hvert barnið séð. Eða þekkir ekki hæstv. ráðherra mun á formi og efni, enda hétu frumvörpin sínu nafni hvort.

Eg vil spyrja. Hve mörg samkynja frv. mega vera samtímis á ferð í þinginu, megi þau vera 2, hví þá ekki 3, 4, 5, 10, 20 eða 40?

Hæstv. ráðh. (H. H.) var að reyna að bera í bætifláka fyrir frumvarp mþn., en fórst það ekki hönduglega, sagði að 50 aurar væri prentvilla fyrir 30 aura! Trúi því hver sem vill og getur, að 50 aurar sé prentvilla hjá milliþinganefnd, stjórn og efri deild. Ed. búin að leggja afarmikla vinnu í frv. og búin að samþykkja það við þrjár umr. Er það þá líka prentvilla hjá milliþinganefndinni að síldarlýsi hafi verið gjaldfrjálst áður. (Ráðherra: Þingmaðurinn hafði ekki hugmynd um þetta sjálfur). Það sannaði ekkert þótt satt væri. Eg hefi aldrei átt að taka toll af síldarlýsi, sat heldur ekki í milliþinganefndinni. Ef eg hefði setið þar, þá hefði slík villa aldrei komið fyrir. Eg hefði lesið lögin frá 4. nóvember 1881, áður en eg hefði farið að prjóna við þau, en það hafa nefndarmennirnir auðsjáanlega ekki gert.

Hæstv. ráðherra fáraðist mikið út af því, að eg hefði viðhaft stór orð um þetta. Eg skal játa það, að eg hefði getað viðhaft vægari orð, en eg er einu sinni vanur að tala eins og eg hugsa og skafa ekki utan af því, segja það vanþekkingu og hroðvirkni sem vanþekking og hroðvirkni er. Annars ferst hæstv. ráðherra ekki að finna að „stóryrðum“ mínum. Hann talaði miklu frekara, þó að ekki búist eg við að lesa það í Þingtíðindunum. Vil að eins segja honum í mesta bróðerni, að mér finst það ekki hæfa umboðsmanni, að setja ofan í við umbjóðendur sína, ekki hæfa ráðherra að atyrða þingmenn.

Hæstv. ráðherra (H. H.) sagðist hafa heyrt, að eg hefði verið ráðinn í því, að gera mitt til að frv. milliþingan. kæmust ekki fram. Hæstv. ráðh. heyrir svo margt. Eg heyri ekki jafnmargt, enda fer eg ekki víða. En samt hefi eg heyrt ýmislegt sem í frásögur væri færandi, en eg gef þó ekki um að hafa yfir. Annars væri það sízt goðgá að koma þeim frumvörpum fyrir kattarnef. Þau eru jafnilla orðuð og þau eru vanhugsuð, en hæstv. ráðherra gerir mér of hátt undir höfði með því að segja, að eg hafi felt frumvörpin einn.

Eg hefi þó lýst yfir því áður, að eg hafi mælst undan því að verða skrifari eða framsögumaður í nokkru máli milliþinganefndarinnar, ekki af því að eg þyrði ekki að eiga orðastað við ráðh., það er ekki svo hættulegt, heldur af því að eg vildi ekki reita hann til reiði, enda hefðu þau fallið fyrir hverjum sem vera skyldi. Og víst er um það, að ekki drap eg kolafrumvarpið; stjórnin sá sem rétt var sóma sinn og lagði það ekki fyrir þingið. Ekki drap eg heldur tóbaksfrumvarpið. Hæstv. ráðh. varð að horfa upp á að virkta vinir hans gerðu það, þar á meðal 2 notariusar, sem hafa orð á sér fyrir að vera fremur taumliðugir. Hinum 3 hefi eg að vísu með góðra manna hjálp reynt að lóga, og vona að það lánist, en eg er þar ekki nema einn af átján vona eg.

Annars er mér óskiljanlegt að þetta útburðarfrv. skuli geta kveikt í nokkrum. Landssjóði gerir það ekkert eða a. m. k. nauða lítið gagn, og ekki verður sómi margra þúsunda milliþinganefndarinnar mikill fyrir það, þó að frv. líkt lang-aumasta frumvarpi nefndarinnar gengi fram, frv. sem rubba hefði mátt upp betur á örfáum mínútum.

Eg þarf ekki að tala meira; legg fast á móti frv, vil ekki einu sinni greiða atkv. með því að láta það í „ílátið“.