16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Eggert Pálsson:

Eg þykist skilja af hvaða rótum þetta frv. er runnið; það mun vera til komið í því skyni að ná sér niðri á skattamálanefndinni, líkt og kom fram í dag, er felt var í Ed. frv. frá skattamálanefndinni í Nd. Eg býst ekki við, að eg sé spámannlega vaxinn, en það liggur í hlutarins eðli, að ef önnur tekur upp frv., sem liggur fyrir hinni, þá muni það ekki hafa heillavænlegar afleiðingar, hvorki nú né framvegis.

Þá skal eg víkja að málinu sjálfu. Eg hefi verið á móti því að leggja toll á síldarlýsi, fóðurkökur, áburðarefni o. fl. ekki af því að eg hafi horn í síðu milliþinganefndarinnar. En mér finst það lýsa ránfuglshætti að leggja á þennan toll og aðra tolla á þessu þingi, aukaþingi. Aftur skal eg ekki segja, að eg verði á móti því á komandi þingi.

Önnur ástæða mín til að vera á móti þessu frv. er sú, að hér er ráðist á fyrirtæki, sem orðið getur þýðingarmikið í framtíðinni. Ef strax er hlaupið til að leggja toll á þessar afurðir, getur það leitt til þess, að þetta iðnaðarfyrirtæki leggist niður, og er þá ekki skynsamlega af stað farið. En næði þetta fyrirtæki að blómgast og yrðu líkar verksmiðjur tíðar um landið, þá mundi þaö verða til mikilla heilla og aukinnar framleiðslu í fyrsta lagi fyrir sjávarútveginn, þar sem til þessa atvinnureksturs er notað rusl og annað það, sem vant er að hirða ekki við sjóinn, og í öðru lagi fyrir landbúnaðinn, að þvi leyti sem fóðurkökur, fóðurmjöl og áburðarefni eru einmitt efni, sem landbúnaðurinn þarf á að halda.

Þriðja ástæða mín til að vera á móti frumv. er sú, að nú í dag hefir verið hér í deildinni samþykt tillaga um samningaumleitun við Norðmenn. Mér þykir það ekki lýsa mikilli stefnufestu, ef sama deildin 1—2 klst. seinna fer að gera sitt til að hefta árangur af fyrirtækjum þeirrar þjóðar, sem hún vill ná samkomulagi við, fyrirtækjum, sem eru rétt að komast á laggirnar.

En þó að eg vilji ekki leggja toll á þessar afurðir nú, þá skal eg ekki segja, hvort eg mundi ljá því fylgi á næsta þingi, ef auðsætt væri, að verulegur arður er orðinn af þessu.