19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg mun eigi halda langa ræðu. Eg hefi borið fram þá till. að fella mál þetta burtu með rökstuddri dagskrá. Hér liggur fyrir deildinni frv., sem er lengra á veg komið og sem mér fellur betur í geð með þeirri breytingu, sem eg hefi stungið upp á. Frumvörpin eru svipuð að efni en ekki samhljóða. Eg vil benda á, að það er óvarkárt að fella þetta frv., því þá er hætt við að því verði haldið fram á eftir, að ekki sé leyfilegt að taka hitt frv. til meðferðar, vegna þess að búið sé að fella frv. með samkynja efni. Þetta frumv. á eftir fjórar umr., en hitt frv. aðeins eina í þessari deild og eina í Ed., og er því sjálfsagt að láta það síðarnefnda ganga fram eða falla, en taka hið fyrra út af dagskrá. Eg skal geta þess, að eg tek aftur br.till. mína á þgskj. 153, og vil eg jafnframt benda á það, að eg kem fram með brt. við næsta frv. um nýja 1. gr., og legg eg mikla áherzlu á hana; það getur orðið skaði fyrir landssjóð ef sú gr. er ekki tekin upp í lög, og það sem fyrst. Eg vona að háttv. deild fallist á dagskrána.