19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Ráðherrann (H. H.):

Það er óþarfa hræðsla við þennan toll, að hann hræði menn frá því, að setja upp verksmiðju til að vinna úr síld, því að þeir menn, sem það hafa í huga, búast jafnvel við hærra gjaldi en þessu.

Þá get eg heldur ekki skilið í því, að þetta geti spilt fyrir samningum við Norðmenn, því þeir geta ekki álitið að þetta gjald sé sérstaklega á þá lagt. Þetta gjald kemur ekki frekar niður á Norðmenn en Íslendinga, það gengur jafnt yfir alla, og það virðist segja sig sjálft, að á meðan lýsistollur er í lögum, þá er ósamræmi í því að sleppa þessari tegund lýsis.

Annars ætla eg ekki að tala frekar um þetta. Eftir því sem fram hefir komið um óskir manna viðvíkjandi þessu máli, vona eg að það eigi vísan framgang hér í deildinni.