21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðl. Guðmundsson:

Eg skal ekki halda langa ræðu. Hinn háttv. þm. N. Þing. (B. Sv.) veður reyk, og gerir sig beran að því að vera ókunnugur mjög þeim atriðum, er að þessu máli lúta.

Lögin frá 31. júlí 1907 leggja ekki toll á aðra síld en þá, sem flutt er út í umbúðum. Síld, sem flutt er út laus í farrúmi, er tollfrjáls eftir okkar lögum. Þar er gat á löggjöfinni. Það væri ekki höggvið svo lítið skarð í landssjóðinn, ef hann færi á mis við útflutningsgjald af þeirri síld, sem flutt er út á þennan hátt.

Þetta vildi eg taka fram að er bygt á hreinum misskilningi hjá þm., enda er ekki gott frá sanngirninnar sjónarmiði að fylgja því fram, að borgaðir séu 50 aurar af hverri tunnu; það er óheyrilega hár tollur.

Eins bryddi á ókunnugleika þm., þegar hann vildi segja, að ástæðan til þess að þessi atvinnuvegur er stundaður minna nú heldur en í fyrra, sé sú, að það séu lagðar svo þungar kvaðir á hann.

Ástæðan er ekki sú, að menn hafi óttast kvaðirnar, heldur hitt, að afurðirnar, þetta fóðurmjöl, eru í lægra verði í útlöndum nú en í fyrra.

Eg skal svo ekki fara frekar inn á þetta mál, en vona að deildin samþykki það nú við 3. umr.