21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Bjarni Jónsson:

Eg stend upp að eins til að lýsa yfir því, að eg tel frv. þetta illa til fundið og óþarft í alla staði.

Ef til vill eru laun eða dagpeningar þingmanna of lág, og væri ástæða til að hækka þau, en hér er hvorki tími eða tækifæri til slíks. Það ætti að biða næsta fjárlagaþings.

Það er athugavert að gera raun á dagpeningum Reykvíkinga og annara landsmanna. Það gæti valdið því, að Reykvíkingar yrðu frekar kosnir á þing en aðrir, ekki fyrir þá sök, að þeir væru hæfari heldur ódýrari, og það yrði fjársparnaður að kjósa þá. Eg býst sjálfur við að verða búsettur í Reykjavík, og mundi eg ekki spilla kosningarhorfum mínum með því að mæla svo, ef mér þætti hæfa að gefið væri með Reykvíkingum til þingsetu.

Ekki sé eg þörf á að setja nánari reglur en til eru fyrir þingfarararkaupi alþingismanna; því eftir þeirri nákvæmni, sem kom fram í dag í umræðunum um ferðakostnað minn, sé eg enga ástæðu til að ætla, að þingmenn reikni ferðakostnað sinn of hátt — telji hesta eða fylgdarmenn, sem þeir hafa aldrei haft, eða annað slíkt. Að minsta kosti get eg ekki vænst rangra reikninga frá þeim háttvirtu þingmönnum, sem nú skipa þessa deild. Hins gæti eg vænst, að þeir skoruðu á hverju þingi á stjórnina að rannsaka nákvœmlega alla ferðareikninga sína. Að þessu athuguðu fæ eg ekki betur séð en þetta frv. megi gjarna falla nú þegar.