23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Jónsson:

Eg skal leyfa mér að taka upp einu sinni það, sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) þrítók, að tillaga sín væri hin bezta; hverjum þykir sinn fugl fagur. Eg hefi ekki séð eins smásmuglega að eg ekki segi lúsablesalega tillögu eins og þessa, að vilja gera bæjarþingmönnum lægra undir höfði heldur en utanbæjar. Eg viðurkenni það, að ferðir utanbæjarmanna eru dýrar. En eg vil benda á annað, sem réttlætir það, að Reykvískum þingmönnum sé gert jafnt undir höfði sem öðrum þingmönnum og það er það, að þeir verða að gera sér ferðir í kjördæmi sín til að halda þingmálafundi. Aftur kosta slíkar ferðir utanbæjarmenn lítið þar sem þeir oft um leið beint geta þá rekið önnur erindi sín og þannig grætt á ferðinni; það á illa við að vekja kala fyrir svo mikla smámunasemi.

Viðvíkjandi tillögu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) má segja sama sem um tillögu h. hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að hún kunni að vera sprottin af hræðslu við kjósendurna. En komið getur það fyrir, að vér verðum allir dauðir fyrir næsta þing.

Viðvíkjandi tillögu hv. 1. þm. Skagf. (Ó. B.) má segja það, að hann verður góður þegar hann kemur til sinna kjósenda, þar sem hann er á móti hækkun.