23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Ráðherrann (H. H.):

Eg vil benda á það, að þótt þessar framkomnu br.till. sýnist hver annari gagnólíkar, þá eiga þær það sameiginlegt, að hver þeirra sem verður samþykt, leiðir til falls fyrir frv. Verði frv. breytt í einhverju atriði, þá verður ekki auðið að koma því fram, því að tími vinst ekki til þess að frv. nái fram að komast gegnum Ed. aftur, ef til vill síðan til einnar umræðu hér. Þess vegna er nauðsynlegt, ef menn vilja á annað borð aðhyllast meginatriði frumvarpsins, að samþykkja það óbreytt; er þá eins auðvelt að breyta því að sumri, í þeim atriðum, sem menn kynnu að vera óánægðir með. Út af br.till. hv. 1. þm. Rang. skal eg að eins taka það fram, að eg fæ ekki séð að það sé neinn ægilegur ójöfnuður milli þingmanna í ákvörðun dagpeninganna. Þeir eru jafnir fyrir alla, 8 kr. á dag. En þeir þingmenn, sem ekki eiga heima hér í Reykjavík, eiga í raun réttri fulla sanngirniskröfu til einhverrar sérstakrar uppbótar í stað þess sem þeir verða að leigja sér hér húsnæði, fá sér þjónustu og hafa ýms smá-útgjöld daglega, sem hér búsettir menn sleppa við. Eg vona þess vegna að hv. 1. þm. Rang., sem annars er meðmæltur frv., sé fús á að taka br.till. aftur.