24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Bjarni Jónsson:

Eg get ekki sannfærst um það að rétt sé að hækka þessa fæðispeninga þingmanna upp úr 6 kr., það eru óneitanlega fæðispeningar en ekki kaup. Það getur hver maður sem er lifað á 6. kr. á dag og það all sómasamlega hér í Reykjavík. Mér finst því þessi kafli frv. óþarfur og vil eg helzt láta fella hann burtu; geri eg það nú að tillögu minni að vísa þessu máli til stjórnarinnar, til þess, að hún geti lagt það undir næsta þing, betur undirbúið. Eitt er raunar gott í þessu frumvarpi og það er, að ákveða ferðakostnaðinn fyrirfram, eftir því sem unt er. Eg veit raunar ekki hvort samræmið er sem bezt í reikningunum, en mér skilst að það muni nú ekki vera. Einnig er það annað atriði sem eg vil fella burtu úr frv., það er að vera að ákveða ferðakostnað til Danmerkur, mér finst það ekki vera ástæða til þess fyrir oss að vera að gera ráð fyrir því, að við munum ávalt eiga í vændum danska þingmenn, ferðakostnaður þeirra ætti að reiknast úr því kjördæmi, sem kýs þá Það gladdi mig, að gert er ráð fyrir að þingmenn fái 2 kr. á dag í þjórfé og hefði það ekki verið illa til fundið að skjóta því að þingmanni Seyðfirðinga áður en hann las hér upp þessa prentuðu ræðu sína um viðskiftaráðunautinn.

Eins og eg tók fram áðan, þá finst mér frumv. ekki nógu vel athugað og vil eg því gera það að tillögu minni að því verði vísað til stjórnarinnar, til betri undirbúnings fyrir næsta þing.